Mynd: EPA-EFE - EPA

Annríki hjá breskum ferðaskrifstofum
23.02.2021 - 11:56
Annríki hefur verið hjá breskum ferðaskrifstofum og flugfélögum frá því í gær þegar Boris Johnson forsætisráðherra kynnti áætlun um tilslakanir í sóttvörnum. Johnson sagði að samkvæmt áætlun stjórnvalda yrðu utanlandsferðir mögulegar frá og með 17. maí. Hann kvaðst vona að lífið gæti verið farið að ganga sinn vanagang um mitt sumar.
Englendingar sólgnir í sólarferðir
Þessar yfirlýsingar urðu til þess að ferðaþyrstir Englendingar hafa pantað ferðir til sólarlanda að sögn talsmanna ferðaskrifstofunnar Tui. Mest hafi verið pantað af ferðum til Grikklands, Tyrklands og Spánar í sumar. Lággjaldaflugfélagið EasyJet sagði að bókanir til áfangastaða í sólríkum löndum hefðu sexfaldast og flestir hefðu bókað ferðir í ágúst-mánuði.
Vonbrigði að ekki megi ferðast um páska
Forráðamenn ferðaþjónustufyrirtækja lýstu þó vonbrigðum vegna þess ferðalög innanlands verða ekki leyfð um páskana. Lorna og Alistair Handyside reka sumarbústaðabyggð í Devon og Lorna sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið í morgun að það væri skelfilegt að mega ekki taka á móti gestum um páskana, þau þyrftu að standa undir rekstrarkostnaði og borga af lánum.