100 þúsund króna sekt fyrir að framvísa ekki vottorði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Þeir farþegar, sem framvísa ekki neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins, eiga yfir höfði sér 100 þúsund króna sekt. Þeir sem framvísa fölsuðu vottorði verða ákærðir fyrir skjalafals. Þetta kemur fram í nýjum fyrirmælum ríkissaksóknara sem embættið sendi frá sér í dag. Þeir sem reyna að komast hjá sýnatöku á landamærunum geta einnig fengið sekt upp á 100 þúsund krónur.

Nýjar og hertar reglur á landamærunum tóku gildi á föstudag en ákveðið var að gefa farþegum smá svigrúm til aðlagast breyttu umhverfi. Á morgun tekur alvaran hins vegar við því þá taka gildi ný fyrirmæli frá ríkissaksóknara.

Í þeim er kveðið á um 100 þúsund króna sekt fyrir að framvísa ekki neikvæðu COVID-prófi, sem er yngra en 72 stundir, við komuna til landsins. 100 þúsund króna sekt liggur við því að fara ekki í sýnatöku á landamærunum og brot gegn því að fara ekki sóttvarnahús eða brjóta gegn skyldum um einangrun þar getur varðað sektum allt að 50 til 250 þúsund krónur.

Þeir staðir sem ekki framfylgja reglum um grímuskyldu geta átt von á sekt uppá 100 til 500 þúsund sem og þeir sem ramfylgja ekki reglu um 2 metra á milli einstaklinga.

Ríkissaksóknari tekur fram að þeir sem framvísa fölsuðu vottorði verða ákærðir fyrir skjalafals. Samkvæmt hegningarlögum getur slíkt brot varðað allt að 8 ára fangelsi ef brotið telst alvarlegt. Ef brotið varðar lítilræði eða málsbætur eru miklar má beita fangelsi allt að einu ári eða sektum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV