
Trump og Repúblikanar tapa tveimur dómsmálum
Þrír dómarar við Hæstarétt Bandaríkjanna vildu að dómstóllinn tæki dómsmál Repúblikana fyrir. Fjóra dómara þarf til að dómstóllinn taki mál fyrir. Þeir tóku þó fram að framkvæmdin sem um er deilt hefði ekki ráðið úrslitum í kosningunum. Deiluefnið sneri að því að frestur kjörstjórna til að taka á móti utankjörfundaratkvæðum og telja þau var framlengdur. Einn af þremur hæstaréttardómurum sem Trump skipaði vildi taka málið fyrir, Neil M. Gorsuch. Brett M. Kavanaugh og Amy Coney Barrett tjáðu sig hins vegar ekki um beiðnina.
Verða að afhenda skattframtölin
Hæstiréttur kvað í dag upp dóm sinn um skattframtöl forsetans fyrrverandi. Cyrus Vance, saksóknari í Manhattan, hefur barist fyrir því mánuðum saman að fá skattframtöl forsetans frá 2011 til 2019 afhent. Rannsókn hans snerist upphaflega að greiðslum til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels og annarrar konu fyrir kosningarnar 2016. Þær hafa báðar lýst því að þær hafi átt í kynferðissambandi við Trump áður en hann var kosinn forseti.
Við rannsóknina hefur sjónarhorn saksóknarans breyst og nú kannar hann líka möguleika á skattaundanskotum og svindli sem beindist að tryggingafélögum og bönkum.
Vance krafðist þess að fá skattframtöl Trumps afhent en lögmennirnir leituðu á náðir dómstóla til að koma í veg fyrir það. Nú hefur Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnað beiðni þeirra um að dómstóllinn kæmi í veg fyrir afhendingu gagnanna. Málið hefur áður ratað fyrir Hæstarétt sem hafnaði rökum lögmanna Trumps um að ekki mætti ákæra sitjandi forseta.