Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tíu þúsund Íslendingar fullbólusettir

22.02.2021 - 07:21
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Tíu þúsund Íslendingar hafa nú verið fullbólusettir, rúmlega 8.800 með bóluefni frá bandaríska lyfjarisanum Pfizer og um tólf hundruð með bóluefni Moderna. Helmingur allra sem eru 90 ára eða eldri hefur fengið báðar sprautur og 25 prósent til viðbótar hefur aðeins fengið þá fyrri.

Rétt tæplega sex þúsund fengu bólusetningu í síðustu viku, langflestir bóluefni Pfizer. 

Á morgun hefst seinni bólusetning fólks í aldurshópnum 90 ára og eldri sem fékk fyrri sprautuna 2. febrúar og þá er einnig boðað fólk í þeim aldurshópi sem missti af fyrri bólusetningu. Bólusetning fer fram á Suðurlandsbraut 34 og boð um bólusetningu verða send með SMS skilaboðum.  

Í þarnæstu viku er svo stefnt að því að bólusetja yngri aldurshópa og þá vinnur heilsugæslan sig niður eftir aldursröðun, fyrst í röðinni er fólk á aldrinum 80-89 ára.  

Hlutfall bólusettra er hæst á Austurlandi og á Vestfjörðum, næstum 6 prósent íbúa, og lægst á Suðurnesjum, um 3,5 prósent. 

Samkvæmt afhendingaráætlun á þeim bóluefnum sem þegar hafa fengið markaðsleyfi er gert ráð fyrir að hægt verði að bólusetja samtals 190 þúsund manns fyrir júnílok. Öllum eldri en 15 ára hérlendis verður boðin bólusetning. Það eru 280 þúsund manns. Hér að neðan er fyrsta útgáfa íslenska bólusetningardagatalsins sem var birt á föstudag.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Geir Ólafsson - RÚV