Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tíu ár frá mannskæðum skjálfta í Christchurch

22.02.2021 - 04:32
Minningarathöfn var haldin 22.02. 2021 um þær 185 sálir sem fórust þegar jarðskjálfti reið yfir Christchurch á Nýja Sjálandi 22.02.2011.
 Mynd: AP
Nýsjálendingar minnast þess í dag að 10 ár eru liðin frá því að jarðskjálfti varð 185 manns að fjörtjóni í borginni Christchurch og nágrenni. Efnt var til minningarathafnar í miðborg Christchurch, þar sem fólk safnaðist saman við minnismerki um fórnarlömb skjálftans. Klukkan 12.51 hófst einnar mínútu þögn í minningu þeirra sem fórust í skjálftanum, sem reið yfir klukkan 12.51 hinn 22. febrúar 2011.

Nöfn þeirra sem dóu voru síðan lesin upp af hópi Christhchurch-búa, þar á meðal ófáum úr röðum björgunar- og viðbragðsaðila. Borgarstjóri Christchurch, Lianne Dalziel, forsætisráðherrann Jacinda Ardern og Maan Alkaisi, sem missti eiginkonu sína í skjálftanum, ávörpuðu samkomuna.

Kona hins sjötuga Alkaisis, Maysoon Alkaisi, var í hópi 115 manneskja sem fórust þegar bygging CTV-sjónvarpsstöðvarinnar í borginni hrundi í skjálftanum, sem var 6,3 að stærð. Hann hefur barist fyrir því árum saman, ásamt aðstandendum annarra sem fórust í CTV-byggingunni, að hönnuðir hennar verði sóttir til saka.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV