Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þrír skipverjar á Júlíusi hafa sagt upp störfum

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Þrír úr áhöfn togarans Júlíusar Geirmundssonar hafa sagt upp störfum og fleiri íhuga stöðu sína um borð. Þetta er í kjölfar þess að maður sem var sviptur skipstjórnarréttindum tímabundið, hefur verið ráðinn stýrimaður í næstu veiðiferð.

Júlíus Geirmundsson liggur nú við bryggju á Ísafirði. Skipið kom í land í gær en næsti túr hefst á miðvikudag. Sveinn Geir Arnarsson hefur verið ráðinn fyrsti stýrimaður í túrinn. Hann var skipstjóri um borð í togaranum þegar hópsýking kom þar upp í október og 22 af 25 skipverjum fengu COVID-19. Hann játaði fyrir héraðsdómi Vestfjarða í janúar að hafa brotið sjómannalög þegar hann ákvað að fara ekki með veika skipverja í land. Þá var hann sviptur skipstjórnarréttindum í fjóra mánuði og sektaður um 750 þúsund krónur. Þrátt fyrir að vera sviptur má hann enn sinna öðrum störfum um borð, þar á meðal sem stýrimaður. Sem slíkur er hann næstráðandi á skipinu á eftir skipstjóra. 

Lýsir lélegu upplýsingaflæði á milli útgerðar og áhafnar

Í yfirlýsingu í október sagðist Hraðfrystihúsið Gunnvör ætla að gera sitt besta við að byggja upp það traust sem hefði glatast á milli áhafnar og fyrirtækis. Í bréfi til útgerðarinnar í nóvember lýstu margir skipverjar yfir vantrausti á hendur skipstjóranum og sögðust ekki vilja að hann héldi áfram störfum um borð. 

Þrír úr áhöfninni hafa nú sagt upp störfum vegna þessa og fleiri íhuga stöðu sína. Einn lýsti sérstaklega óánægju á skorti á upplýsingaflæði á milli útgerðar og áhafnar og að samskiptaleysi sé algjört. Áhöfninni hafi ekki verið tilkynnt af útgerðinni að Sveinn Geir væri á leið aftur um borð, heldur hefðu þeir komist að því af afspurn. Fundur var haldinn hjá áhöfninni um málið í gær, en ekki að frumkvæði HG. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.