Svisslendingur slær í gegn með krimma um Raufarhöfn

Mynd: Kiljan / RÚV

Svisslendingur slær í gegn með krimma um Raufarhöfn

22.02.2021 - 11:55

Höfundar

Joachim B. Schmidt er svissneskur rithöfundur sem tók ungur ástfóstri við Ísland. Hann býr hér nú og skrifar á þýsku um íslensk söguefni. Nýjasta bók hans heitir Kalmann, gerist á Raufarhöfn og hefur náð inn á metsölulista hjá Der Spiegel.

Joachim kom fyrst til Íslands 1997, 16 ára gamall. Hann varð samstundis ástfanginn af landinu. „[Ég varð] bara orðlaus,“ segir hann í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni á RÚV. „Svo þurftum við að fara heim aftur og ég næstum því grét. Þá tók ég ákvörðun, ég kem aftur og ég ætla að vera lengur. Svo kom ég aftur sem ferðamaður og ferðaðist á puttanum og kom síðan eitt ár og vann ýmis störf. Þetta var sem sagt fyrsti Íslandsveturinn minn. Þá vissi ég að ég get þetta, ég get verið hér allt árið. Svo flutti ég 2007 til Íslands.“

Skáldsögur Joachims gerast flestar á Íslandi. Sú nýjasta, Kalmann, gerist á Raufarhöfn og hefur fengið góða dóma í Þýskalandi. Hann lýsir henni sem hugljúfum krimma.

„Aðalpersónan heitir Kalmann Óðinsson. Hann er pínu sérstakur. Hann er með væga þroskahömlun og finnst hann vera sheriff á Raufarhöfn, hann er með kúrekahatt og sheriff-stjörnu og antíkskammbyssu. Hann vaktar svæðið. Hann er reyndar líka refaskytta og hákarlaveiðimaður.“

Dag einn hverfur ríkasti maðurinn í þorpinu, sem er hótel- og kvótaeigandi. „Hann hverfur og Kalmann finnur stóran blóðpoll í snjónum. Þannig byrjar sagan og lögreglan kemur og fjölmiðlar og heimurinn hans Kalmanns snýst svolítið á hvolf. Þetta verður svolítið erfiður tími fyrir hann. En hann reynir að hjálpa og gerir sitt besta.“

Bókin er væntanleg á íslensku, segir Joachim. „Ég er mjög stoltur og ánægður. Af því þetta var draumurinn minn, að vera gefinn út hér á Íslandi og vera hluti af íslenska bókmenntaheiminum.“

Joachim virðist vera vel að sér um íslenskt samfélag. Í bókinni á undan Kalmanni fjallar hann um þýsku konurnar sem settust að á Íslandi eftir síðari heimsstyrjöldina.

„Ég hef fundið margar sögur hér á Íslandi á meðan ég bjó hér sem mér fannst mjög áhugaverðar. Þessari sögu um þýsku konurnar kynntist ég mjög snemma. Ég var í kirkjukór þegar ég bjó á Laugarási og þarna var kona sem talaði þýsku og mamma hennar var ein af þessum konum. Þá byrjaði ég að rannsaka og á þessum tíma var ekki mikið talað um þetta, sem sagt fyrir 14-15 árum, eitthvað svoleiðis. Þannig finn ég stundum sögur sem mig langar að grúska í, að rannsaka og svo búa til einhvers konar skáldsögu í kringum það. Mér fannst það bara spennandi.“

Tengdar fréttir

Innlent

Hrækt á þýsku konurnar sem komu til Íslands