Stundum er pikkað í mann og maður bara fylgir

Mynd: Hjördís Kvaran Einarsdóttir / Hjördís Kvaran Einarsdóttir

Stundum er pikkað í mann og maður bara fylgir

22.02.2021 - 15:38

Höfundar

Tilurð ljóðabókarinnar Urð eftir Hjördísi Kvaran Einarsdóttur á rætur sínar í því að það var pikkað í hana. En þótt Urð sé fyrsta ljóðabók Hjördísar Kvaran Einarsdóttur sem ber ISBN númer eins og allar formlega útgefnar bækur þá hefur Hjördís gegnum tíðina sent frá sér ein fimm ljóðahefti sem hún hefur dreift í afmörkuðum hópi.  

Fyrir fáeinum árum fékk Hjördís Kvaran SMS- skilaboð í símann sinn þess efnis að einhver hefði rekist á ljóð hennar „Ef“

Ef ég kæmi til þín,
tæki utan um þig
og andaði að mér lyktinni,
sem ég sakna svo sárt,

og ef ég kæmi til þín,
hvíslaði að þér orðunum
sem áttu að vera sögð.
en voru aldrei sögð,

og ef ég kæmi til þín,
*gæfi þér hjartamitt
og alla mína ást,
sem þú áttir alltaf einn,

og ef ég kæmi til þín,
sýndi þér sál mína
eins og hún er,

og ef ég kæmi til þín,
legði niður vopnin
og vildi semja um frið,

myndirðu þá kasta mér frá þér?

Aftur?

Ljóðið  „Ef“ hafði haft áhrif á sendandann, minnt á ljóð eftir Rudyard Kipling með sama titli „If“, sem einmitt er eitt af eftirlætisljóðum Hjördísar sjálfrar og ýtti þess vegna við henni að huga að öllum ljóðunum sem hún hefur ort í gegnum tíðina, allt frá menntaskólaárum sínum og stundum búið til hefti og gaukað að vinum og vandamönnum. Var þetta SMS merki um að safna saman þessum ljóðum og gefa út bók.  Þetta ferli endaði með ljóðabókinni Urð, sem í augum Hjördísar er tilvistarlegt orð og vísar til tilurðarinnar. 

„Það var auðvitað heilmikið ferli og vinna að grafa fram öll ljóðin og síðan velja úr hver skyldu birtast í bókinni því ég vildi segja ákveðna sögu og þannig má lesa bókina en líka má lesa eitt og eitt ljóð,“ upplýsir Hjördís.

Ljóðabókin Urð er efnismikil ljóðabók sem skiptist þrjá kafla sem bera yfirskriftir örlagasetningarinnar Enginn ræður för. Þetta eru glaðvær ljóð flest en og full af heitum tilfinningum og það kennir líka harms hér og hvar. Mörg ljóðanna fjalla um samvistir eða samleið og ást að því er virðist af ólíkum toga, jafnvel forboðana ást, en líka ást sem dó þegar önnur fæddist. Stundum er svo alls ekki alveg ljóst hvers konar elskendur eru á ferð maður og kona, fullorðinn og barn, foreldri og barn, jafnvel systkin? 

Ljóðið „Ef“ er líklega elsta ljóð bókarinnar, ort í íslenskutíma í menntaskóla. Yngstu ljóð bókarinnar eru svo frá því í fyrra. Ljóðið „Stundum“ er dæmi um eitt af glettnu ljóðunum af mörgum  í ljóðabókinni Urð eftir Hjördísi Kvaran Einarsdóttur.

Stundum

Stundum finnst mér gaman,

að speglami
- þegar ég er sæt,

að syngja
- þegar ég held lagi,

að yrkja
- þegar ég á til orð,

að þykjast
- þegar ég er bara ég,

að vera til
- þegar þú vilt vera hjá mér.

Í ljóðabókinni Urð er ekki aðeins að finna ljóð og orð heldur líka margar og nokkuð súrrelískar klippimyndir sem Pétur Baldvinsson vann sérstaklega fyrir bókina auk þess að eiga heiðurinn af útliti bókarinner sem gefin er út af bókaútgáfu Hjördísar, Kolu, og er á þeim bæ þegar farið að huga að fleiri bókum. 

Hjördís Kvaran Einarsdóttir stundaði nám í bókmenntafræði og íslensku við Háskóla Íslands og hefur einkum einbeitt sér að miðaldafræðum. Hjördís er líka menntaður kennari og sérkennari og starfar við það auk þess að stunda meistaranám í miðaldafræðum.