Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stekkjaskóli settur næsta haust í bráðabirgðastofum

22.02.2021 - 22:29
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Nýr skóli, Stekkjaskóli á Selfossi, verður settur næsta haust. Foreldrar eru ósáttir við að börn þeirra séu flutt úr öðrum skólum í bráðabirgðastofur. Skólinn rís í óbyggðu hverfi í útjaðri bæjarins.

Mikil fólksfjölgun hefur orðið í Árborg seinustu ár. Frá árinu 2017 hefur íbúum fjölgað um fjórðung. Á Selfossi eru nú tveir grunnskólar.

„Það má segja að bæði Sunnulækjarskóli og Vallaskóli séu þokkalega sprungnir. Það hefur verið saumað við þá og með ýmsum leiðum haft undan en nú erum við bara komin að þolmörkum,“ segir Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Framkvæmdir eru því hafnar við nýjan skóla, Stekkjaskóla. Haustið 2022 á að hefja kennslu í fyrsta áfanga skólans, en strax í haust á að setja upp bráðabirgðastofur þar sem kenna á börnum á yngsta stigi. Foreldrar hafa mótmælt því að börn þeirra verði færð úr öðrum skólum í bráðabirgðastofur í óbyggðu hverfi.  Lögð hefur verið fram kæra til menntamálaráðuneytisins vegna tilfærslunnar. Hart var tekist á um málið í bæjarstjórn í vikunni. 

„Vissulega ber þetta brátt að. Það er erfitt að breyta og við vitum að fólk sem hefur verið með börnin sín í einum skóla en fellur nú undir ný skólahverfi sem voru skilgreind á seinustu tveimur árum,  að þetta eru auðvitað viðbrigði. Það getur vel verið að mörgum finnist óþægilegt að gangast undir slíkar breytingar,“ 

Ef maður horfir hérna yfir lóðina þá er ekki mjög skólalegt um að litast. Er það ráðlegt að hefja kennslu hérna strax?

Já, ef þú hefðir komið hérna fyrir ári þá var hér ekkert nema mói og mýri, svo það er margt hægt að gera á hálfu ári,“ segir Gísli.

Sund og íþróttakennsla fer fram í öðrum hluta bæjarins, og því þarf að keyra börnin í þá kennslu. 

„Við gerum ráð fyrir að geta byggt íþróttahús við þennan skóla og teljum þörf á því. Það er það mikil íþróttamenning hér á Selfossi að þó að við séum með nokkuð af íþróttahúsum þá eru þau vel nýtt,“ segir Gísli.

Með sömu fjölgun í bænum gerir Gísli ráð fyrir að fjölga þurfi skólum enn frekar.

„Við búum okkur allt eins undir það að þurfa að hefja byggingu á nýjum skóla, jafnvel eftir fjögur ár,“ segir Gísli.