Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Saur makað á veggi og glugga leikskóla á Akureyri

22.02.2021 - 11:36
Mynd: Óðinn Svan / RÚV
Farið var ofan í ruslagám þar sem voru bleyjur og því sem í þeim var, var makað á rúður og veggi leikskólans Holtakots á Akureyri í gærkvöld. Snjólaug Brjánsdóttir, leikskólastjóri, segist sorgmædd.

Saur upp um alla veggi

Það var heldur ógeðfelld sjón sem blasti við starfsfólki leikskólans Holtakots á Akureyri í morgun. Snjólaug Brjánsdóttir, leikskólastjóri, lítur málið alvarlegum augum. „Hér höfðu einhverjir komið opnað ruslagám þar sem við setjum bleyjur í. Það var búið að opna hér poka því auðvitað eru bleyjurnar í ruslapokum. Búið að opna pokana, opna bleyjurnar og klína hér saur upp um alla veggi og dreifa svo úr þessum um allan skólann,“ segir Snjólaug.

Gerir þú þér einhverja grein fyrir því hvað hefur gengið hér á og hver hefur verið að verki?

„Við höfum ákveðnar hugmyndir en eigum eftir að kanna það. En maður er bara svo sorgmæddur að sjá þetta. Hvert erum við komin þegar maður getur átt von á svona aðkomu.“

 „Ef þetta eru börn þá hafa þau of lítið að gera“

Hún segir erfitt að gera sér grein fyrir því hvað vakir fyrir þeim sem gera svona lagað. „Ef þetta eru börn þá hafa þau of lítið að gera. Eða of lítið af spennandi verkefnum.“

Verða einhver eftirmál, hvað ætlið þið að gera? „Ég ætla setja þetta á hverfissíðuna og bara vekja máls á þessu því mér finnst þetta bara graf alvarlegt mál.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Við Holtakot í morgun
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV