Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Óheimilt verði að selja börnum nikótínpúða

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Óheimilt verður að selja nikótínpúða til barna yngri en 18 ára, verði frumvarp heilbrigðisráðherra að lögum. Í umsögnum um frumvarpið er mikil áhersla lögð á að takmarka aðgengi barna að púðunum.

Notkun á nikótínpúðum í vör hefur aukist mjög hér á landi á skömmum tíma, og verslanir sem sérhæfa sig í sölu þeirra hafa sprottið upp eins og gorkúlur. Heilbrigðisráðherra birti í desember drög að frumvarpi til breytinga á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir þær.

Með breytingunum eru tóbakslausar nikótínvörur felldar undir gildissvið laganna, þar á meðal nikótínpúðar. Með því er ætlunin að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að einungis þeir sem eru eldri en 18 ára fái að kaupa nikótínvörur.

Þá er lagt til að óheimilt verði að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna. Einnig er lagt til að óheimilt verði að selja vörur þar sem hver eining inniheldur meira en 20 milligrömm af nikótíni.

Aldurstakmörk tengd greiðslukortum

Umsagnarfrestur um frumvarpið rann út í lok janúar og alls bárust 25 umsagnir.

Í umsögn Landlæknis kemur meðal annars fram að skýra þurfi betur hámark nikótíns í hverri einingu, eins og gert er með hlutfalli af nikótíni í rafrettuvökva.

Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík lýsa yfir ánægju með lagabreytingarnar, en telja að ganga þurfi lengra í að takmarka markaðssetningu og að taka þurfi fyrir netverslun með nikótínvörur, til að minnka aðgengi ungmenna. Lyfjafræðingafélag Íslands tekur í sama streng í sinni umsögn. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Barnaheill leggja áherslu á mikilvægi þess að börn og unglingar byrji ekki að nota nikótínvörur, og því ættu forvarnir að vera í forgangi.

Ragnar Orri Benediktsson, framkvæmdastjóri Svens-verslananna sem selja nikótínpúða, leggur í sinni umsögn einnig áherslu á að börn undir 18 ára hafi ekki aðgang að vörunum. Hann hefur því komið þeirri tillögu til greiðslukortafyrirtækja að greiðslulausnir séu útfærðar þannig að eigandi korts þurfi að hafa náð 18 ára aldri til að geta keypt vörur í búðunum. Þá leggur hann til að á umbúðunum verði merkingar þar sem minnt sé á að púðarnir séu mjög ávanabindandi.

Verið er að vinna úr umsögnum og stefnt að því að leggja frumvarpið fyrir Alþingi í apríl.