Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nú eru töluð 109 tungumál í leik- og grunnskólum

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Börn í íslenskum leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi tala 109 tungumál. Þetta er niðurstaða tungumálaleitar í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins 21. febrúar 2021. Þegar tungumálafjöldinn var fyrst skráður árið 2014 nam fjöldinn 91 máli.

Tilgangurinn var, að því er segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar, að kortleggja þau tungumál sem börn og unglingar á leik- og grunnskólaaldri tala. Tungumálin gefur að líta á Íslandskorti tungumálanna.

Jafnframt er ætlunin að stuðla að jákvæðri umræðu um tungumál og fjöltyngi með það að markmiði að námsmenningin verði þannig að börn og ungmenni finni fyrir stolti yfir tungumálaauði sínum.

Mikilvægt sé að öll börn átti sig á vægi tungumálsins fyrir sjálfmynd og tilfinningalíf hvers og eins. Með slíkri umfjöllun eru höfð að leiðarljósi gildi Barnasáttmálans, Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og mennastefnu Reykjavíkurborgar.

Í drögum starfshóps að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn unnum fyrir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra segir að þau börn og ungmenni, sem læra íslensku sem annað mál, skuli fá íslenskukennslu við hæfi.

Jafnframt beri þeim viðeigandi stuðningur í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli.

Sömuleiðis kemur fram að tryggt verði að kennsla barna og ungmenna af erlendum uppruna verði hluti af grunnmenntun, símenntun og starfsþróun allra kennara og tómstunda- og félagsmálafræðinga.

Það eru Menntasmiðja, Tungumálatorg, Menntavísindastofnun HÍ, Menningarmót – Fljúgandi teppi, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, og Móðurmál – samtök um tvítyngi sem í sameiningu stóðu að leitinni að tungumálum barna og unglinga árið 2021.