Mynd:

Norðmenn ólmir í bólusetningu en efins um framkvæmdina
22.02.2021 - 06:47
Erlent · Heilbrigðismál · Bóluefni gegn COVID-19 · Bólusetning · COVID-19 · Noregur · Evrópa · Stjórnmál
Norðmenn eru ákafir í að láta bólusetja sig gegn COVID-19 en efast um skilvirkni bólusetningaráætlunar heilbrigðisyfirvalda. Þetta er megin niðurstaða skoðanakönnunar sem Opinion gerði á dögunum.
Samkvæmt henni hefur yfirgnæfandi meirihluti frænda okkar Norðmanna tröllatrú á skilvirkni þeirra bóluefna sem í boði eru gegn kórónaveirunni sem veldur COVID-19, því 81 prósent þeirra segjast mjög áfram um að láta bólusetja sig. Einungis einungis átta af hverjum 100 ætlar ekki að fara í bólusetningu, en afgangurinn er á báðum áttum.
Öllu færri hafa trú á skilvirkni bólusetningaráætlunar heilbrigðisyfirvalda. Aðeins 28 prósent þeirra sem afstöðu taka segjast ánægð með ganginn í bólusetningarherferðinni en rétt rúmum helmingi þykir bólusetningin ganga of hægt. Um fimmtungur aðspurðra hefur ekki ákveðna skoðun á þessum þætti málsins.
Um fimm prósent Norðmanna hafa nú fengið fyrri skammtinn af bóluefni og um tvö prósent báða skammta.