Nærri 4.000 skammbyssur í einkaeigu á Íslandi

22.02.2021 - 22:15
Innlent · byssueign · Skotvopn · Vopn
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Nærri 4.000 skammbyssur eru skráðar í einkaeigu á Íslandi. Alls eiga Íslendingar um 70.000 lögleg skotvopn og þar eru haglabyssur langvinsælastar. Sjö byssur voru tilkynntar stolnar í fyrra, sem er töluvert minna en undanfarin ár.

Skotveiði og byssutengdar íþróttir hafa fylgt Íslendingum lengi og eru vinsælt áhugamál. Til að mega eignast byssu þarftu að hafa skotvopnaleyfi, þreyta próf, fylla út alls kyns eyðublöð - og fylgja auðvitað lögum og reglum. Engin takmörk eru fyrir því hversu margar byssur hver og einn má eiga. 

Haglabyssurnar vinsælastar

Um 69.000 byssur voru skráðar í eigu Íslendinga, sumarið 2019, sem eru nýjustu tölur sem fengust frá ríkislögreglustjóra. Þar af eru rúmlega 39.000 haglabyssur, nærri 26.000 rifflar og skráðar skammbyssur eru nærri 4.000 talsins. Skráðar fjárbyssur, flestar hjá bændum, eru tæplega 1.500. 
Af þessum nær 70.000 byssum hefur 1.855 verið fargað eða gerða óvirkar. 

Alltaf einhverjum byssum stolið

Ríkislögreglustjóri segir í skriflegu svari til RÚV að erfitt sé að segja til um hversu margar ólöglegar byssur séu í umferð, en það heyri til undantekninga að lögregla fái slík mál á sitt borð. Hins vegar er reglulega tilkynnt um stolnar byssur, að meðaltali um fimmtán á ári, en þær voru þó bara sjö í fyrra. 

Skotvopn lögreglu eru ekki með í þessum tölum. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV