Nær helmingur kvenna í hernum áreittur kynferðislega

22.02.2021 - 20:50
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: NRK
Nærri helmingur kvenna í norska hernum hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni minnst einu sinni síðasta hálfa árið þegar norski herinn gerði könnun meðal hermanna fyrir skemmstu. Konur í hernum voru bæði líklegri til að verða fyrir kynferðislegri áreitni og að vera lagðar í einelti en karlmenn.

Þetta kom fram á blaðamannafundi norska hersins í dag þar sem niðurstöðurnar voru kynntar. Alls höfðu um ellefu prósent í hernum orðið fyrir einelti síðasta hálfa árið og 22 prósent fyrir kynferðislegri áreitni. Konur voru líklegri til að þola slík brot en karlar og yngri frekar en eldri. 46 prósent kvenna sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni minnst einu sinni eða tvisvar mánuðina áður en könnunin var lögð fyrir. Til samanburðar sögðust fjórtán prósent karla hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á sama tíma. 

Þetta er í annað skipti sem norski herinn gengst fyrir rannsókn á einelti og kynferðislegri áreitni innan sinna raða. Könnun fyrir tveimur árum leiddi í ljós að allt að fjórar af hverjum fimm konum sem voru að sinna herþjónustu í fyrsta sinn urðu fyrir kynferðislegri áreitni. Það var tvöfalt hærra hlutfall en meðal karla. 

Eirik Kristoffersen, yfirmaður hersins, sagði að nýja könnunin sýndi að staðan hefði aðeins batnað innan hersins. Það væri þó ljóst að mikið starf væri óunnið við að sporna gegn bæði kynferðislegri áreitni og einelti. Ráðist verður í nýja rannsókn eftir tvö ár til að sjá hvaða árangur hefur náðst.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV