Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótefnabílstjórarnir „notaðir á völlinn“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Það hefur verið vandamál hversu margir sækja ættingja sína á flugvöllinn. Til að bregðast við þessu hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sent Samgöngustofu formlgt erindi og beðið um að stutt verði við rekstur flugrútunnar. Leigubílstjóri sem hefur sinnt þessum akstri vill að bílstjórar haldi sínu.

Leigubílstjórar fara eftir leiðbeiningum og þurfa ekki í sóttkví

Það er harðbannað að sækja á völlinn, aðstandendur komufarþega geta skilið eftir bíl og afhent sprittaða lykla snertilaust og svo geta farþegar einfaldlega tekið leigubíl heim. Ólíkt ættingjum sem þurfa að fara í sóttkví með sínu fólki ef þeir sækja, halda leigubílstjórar akstrinum áfram. Þeir fara eftir sóttvarnaleiðbeiningum Samgöngustofu; sótthreinsa bílinn milli farþega og láta þá sjálfa um að setja farangurinn í skottið. Margir hafa líka sett upp skilrúm en þess er ekki krafist í leiðbeiningunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Stefán þrífur bílinn.

Margir veigri sér við því að fara í þessar ferðir

Stefán Bachmann Karlsson, leigubílstjóri hjá BSR fékk COVID-19 í október en óljóst hvernig hann smitaðist. Hann segist hafa sloppið vel og að stundum örli á ákveðinni mótefnaöfund hjá farþegum þegar hann segi þeim að hann sé búinn með COVID-pakkann.  Stefán og annar bílstjóri hjá BSR sem líka veiktist hafa verið töluvert í því að sækja fólk á völlinn. „Margir bílstjórar eru komnir á aldur, eru kannski með undirliggjandi sjúkdóma og veigra sér við því að fara í þessar ferðir þannig að við erum svona notaðir í þetta.“ 

Hann segist ekki hafa verið smeykur við þennan akstur áður en hann fékk sjúkdóminn. „Ég tók bara alla vinnu sem ég gat fengið, maður náttúrulega fer eftir öllum leiðbeiningum þá er mjög lítil hætta.“

„Ekkert hugsað um okkur í upphafi faraldurs“

Stefán segir gott að hafa leiðbeiningar til að styðjast við, í fyrstu bylgju hafi ekkert verið hugað að öryggi leigubílstjóra.  „Þessar vélar frá Ítalíu sem var svo mikill viðbúnaður í kringum, öllum farþegum var hleypt beint út í leigubílaröðina og ekkert verið að hugsa um okkur sko.“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Á kaffistofu bílstjóra BSR.

Víðir vill styðja við rekstur flugrútunnar

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur sent samgönguráðuneytinu og Samgöngustofu formlegt erindi og óskað eftir því að rekstur flugrútunnar verði niðurgreiddur. „Leigubílarnir sem uppfylla þær reglur sem gilda um sóttvarnir eru ekkert vandamál en við sjáum aftur á móti að kostnaðurinn við það annars vegar að taka rútuna og hins vegar leigubíl er umtalsverður. Auðvitað þarf líka að reyna að horfa á eitthvert jafnræði í þessu, hvað ríkið á að vera að niðurgreiða ferðir fólks og annað slíkt. Það er ekki endilega einfalt að grípa inn í þetta en þetta er eitthvað sem við viljum að verði skoðað með formlegum hætti og komi niðurstaða í,“ segir Víðir Reynisson. 

Stefán spyr hvort þá sé ekki hægt að styðja við leigubílstjórana líka. „Við erum líka búin að missa ansi mikið, eigum við ekki bara að leyfa okkur að taka þetta.“ Það gefi auga leið að rekstur flugrútunnar borgi sig ekki, þegar fáir farþegar koma til landsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Snertifletir sprittaðir.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV