Mæður handrukkara og þunglyndi í fjölskyldum geimfara

Mynd: RÚV / RÚV

Mæður handrukkara og þunglyndi í fjölskyldum geimfara

22.02.2021 - 12:28

Höfundar

Að skrifa smásögu er eins og að kveikja á eldspýtu í myrkri og lýsa upp atvik eða aðstæður í lífi fólks, segir Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur. Mikilvægt sé þó að myrkrið í kring, sagan á bak við söguna, sé nálæg og áþreifanleg. Sigurbjörg sendi frá sér smásagnasafnið Mæður geimfara á síðasta ári.

Fyrir jólin sendi Sigurbjörg Þrastardóttir frá sér skrautlegt smásagnasafn sem nefnist Mæður geimfara. Þar fjallar hún um þunglyndi í fjölskyldu geimfara, mæður handrukkara, himingeiminn, Mikka mús og Marilyn Monroe svo eitthvað sé nefnt í harmrænum en grátbroslegum sögum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Safnið geymir stuttar smásögur, frá hálfri síðu upp í þrjár.

Sigurbjörg segir segir að í smásögum hennar sé mikilvægt að lesandinn skynji líka söguna á bak við söguna, nálægð þess sem ekki er sagt á þeim örfáu síðum sem smásagan rúmar. „Eins og maður kveikir á eldspýtu í myrkri, þá lýsast upp aðstæður eða atvik. Einhver kafli úr lífi. En það sem er í kring í myrkrinu þarf eiginlega að vera með,“ segir hún. „Orðin eru því kannski frekar fá en ég alla vega vona að heimurinn sé stærri sem fylgir með.“

Sumar sögurnar í safninu eru súrrealískar en Sigurbjörg segir að fyrir sér sé súrrealisminn lógískur þó að jarðtengingin sé ekki bein. „Mér finnst sögur geta gerst á öllum plönum,“ segir hún. „Þetta eru eins og sporbaugar og stundum er bara rásað út af þeim. Það er allt í lagi.“

Egill Helgason ræddi við Sigurbjörgu Þrastardóttur í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Sumir eru heppnir og fá tækifæri til að kveðjast“

Bókmenntir

„Ég held að ritstífla sé ekkert annað en kvíði“