Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynbundinn launamunur á ábyrgð stjórnenda

Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR. - Mynd: RÚV / RÚV
„Við verðum að setja upp kerfi sem gerir það að refsiverðu athæfi að sjá ekki til þess að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar,“ segir Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri Sameykis, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1. Konur með grunnháskólamenntun hafa svipaðar heildartekjur og karlar sem aðeins hafa lokið grunnskóla. Þórarinn segir að þótt launamunurinn breytist með árunum sé hann alltaf til staðar.

„Þrátt fyrir allar lagasetningar og þetta kerfi sem búið er að búa til utan um það að lagfæra þetta þá er einn faktor sem aldrei hefur verið snertur almennilega. Við höfum lög og það má ekki brjóta þau en stjórnvöld hafa ákveðið að ganga ekki alla leið og setja viðurlög við lögbrotum í þessu. Og launamunur kynjanna verður til við skrifborð stjórnenda. Hann verður til þegar starfsmaður og stjórnandi ákveða einstaklingsbundin laun, fara í launasamtal yfir borðið. Þar hækka karlarnir en konurnar ekki, eða ekki eins mikið,“ segir hann. 

Þórarinn segir að því sé á ábyrgð stjórnenda að sjá til þess að lögum um launamun sé framfylgt og að koma í veg fyrir kynbundinn launamun innan stofnana og fyrirtækja. Stjórnvöld þurfi að gera það refsivert að sjá ekki til þess.

Kynskiptur vinnumarkaður stóra vandamálið

„En stóra vandamálið í kynbundnum launamun er ójafnvægi milli stórra kvennastétta og karlastétta, við erum með kynskiptan vinnumarkað, það er það sem er að gera okkur erfitt fyrir. Við erum með stórar stéttir eins og skrifstofuhópa, félagsliða, félagsþjónustuna og fræðslukerfið, þessar stóru kvennastéttir og þær eru markvisst lægra launaðar. Þetta er virðismat á störfum kvenna sem er ákaflega stórt mein og við þurfum að fara inn í þetta með þau verkfæri sem duga til að laga það. Það þýðir annað viðhorf, meira fjármagn og öðruvísi nálgun,“ segir Þórarinn.