Kína vonast eftir betri tíð í samskiptum við Bandaríkin

epa07703361 Foreign Minister of the Republic of China Wang Yi and Polish Foreign Minister Jacek Czaputowicz (not pictured) speak to reporters during a joint press conference after their meeting in Warsaw, Poland, 08 July 2019. Wang Yi is on a week-long tour of three Eastern European nations taking in Poland, Slovakia and Hungary.  EPA-EFE/MARCIN OBARA POLAND OUT
Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Mynd: EPA-EFE - PAP
Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hvetur Joe Biden Bandaríkjaforseta og ríkisstjórn hans að hverfa aftur til fyrri siða í samskiptum stórveldanna tveggja, eftir stormasöm ár í valdatíð Donalds Trumps.

Refsiaðgerðir og leynimakk valdið „ómældu tjóni“

Í yfirlýsingu sem utanríkisráðherrann sendi frá sér í gær segir hann tilraunir Trump-stjórnarinnar til að halda Kína og kínverskum iðnaði niðri hafa valdið ómældu tjóni. Hvetur hann Biden og stjórn hans til að afnema refsitolla á kínverskan innflutning og falla frá því sem hann kallar óskynsamlega bannstefnu gagnvart kínverskum tæknifyrirtækjum.

Þá brýnir hann stjórnvöld í Washington til að virða rétt Kínverja til að gæta eigin hagsmuna, hætta afskiptum af innanríkismálum í Kína og láta af öllu „leynimakki“ með aðskilnaðar- og sjálfstæðissinnum á Taívan.

„Bandaríkin hafa í raun skorið á tvíhliða viðræður á öllum sviðum síðustu árin,“ segir Wang í yfirlýsingu sinni. „Við erum reiðubúnir að efna til opinskárra samskipta við Bandaríkin og taka þátt í viðræðum sem miða að því að leysa vandamál.“ Nefndi Wang nýlegt samtal þeirra Bidens og Xi Jinpings, Kínaforseta, sem jákvætt skref í þessa átt.

Stirð samskipti og óvíst að þau batni í bráð

Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa verið með verra móti undanfarin ár. Trump og stjórn hans innleiddu margar og stórtækar viðskiptahindranir og refsiaðgerðir af ýmsu tagi og fyrir ýmissa hluta sakir. Þar ber hæst viðskiptastríð stórveldanna, vegna þess sem Trump taldi ósanngjarna og ólögmæta viðskiptahætti Kínverja.

Það var þó ekki það eina, því meðferð Kínverja á minnihlutahópum, einkum Úígúrum og öðrum múslímum í vestanverðu Kína, og aukin umsvif þeirra á Suður-Kínahafi kölluðu líka á refsiaðgerðir.

Stjórn Bidens hefur þegar gefið til kynna að hún hyggist viðhalda þrýstingi á Kína vegna allra ofangreindra atriða.