Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hlutabréfaverð hækkar og almenningur tekur meiri þátt

22.02.2021 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Hlutabréfaverð hefur hækkað þó nokkuð á síðustu mánuðum, viðskipti hafa aukist og almenningur tekur meiri þátt í hlutabréfaviðskiptum en áður. Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur á hagfræðideild Landsbankans, segir í samtali við fréttastofu að aukin þátttaka almennings í hlutabréfaviðskiptum á síðasta ári endurspegli hvernig efnahagskreppan bitnar á afmörkuðum hluta landsmanna.

Miklar verðhækkanir á hlutabréfamarkaði

Frá áramótum hefur OMXI10 vísitalan, sem samanstendur af 10 stærstu félögunum í Kauphöllinni, hækkað um rúmlega 18 prósent, sem er óvenjumikil hækkun á skömmum tíma. Um þetta fjallar hagfræðideild Landsbankans í nýrri hagsjá. Frá því að markaðurinn náði lágmarki í mars á síðasta ári hefur hlutabréfaverð hækkað um tæplega 91 prósent. Af 29 félögum í kauphöllinni hafa bréf í 24 hækkað í verði en lækkað í fimm. Verðhækkanir á hlutabréfum Marels, um 18,5 prósent frá áramótum, hafa leitt hækkun vísitölunnar. Bréf Arion banka hafa hækkað mest, eða um tæplega þriðjung. Bréf Símans hafa hækkað næst mest, eða um 24,7 prósent, og bréf í Sjóvá hafa hækkað um 23,9 prósent. Hlutabréfaverð í Icelandair hefur lækkað um 6,7 prósent frá áramótum. 

„Þessi hækkun segir okkur ekki margt. Þessi hækkun frá áramótum, hún er töluvert mikil í sögulegu ljósi en það má ekki búast við að hækkanir verði jafnkröftugar langt fram í tímann því þá verður hlutabréfaverðið fljótlega yfirverðlagt. Þetta er sveifla innan eðlilegra marka,“ segir Gústaf.  

Aukin viðskipti og áhugi almennings eykst

Viðskipti á markaðnum hafa aukist mikið á síðustu mánuðum. Desember var metmánuður í fjölda viðskipta og þá voru hlutabréfaviðskipti tæplega 9.500. Viðskiptum fjölgaði í öllum mánuðum síðasta árs samanborið við árið áður. „Almenningur hefur tekið meira þátt í viðskiptum á hlutabréfamarkaði og almennum hluthöfum á hlutabréfamarkaði fjölgaði verulega á síðasta ári. Það skýrðist sérstaklega af því að það var verulegur áhugi meðal almennings á hlutafjárútboði Icelandair í september og þá fjölgaði almennum hluthöfum í hlutabréfamarkaði Icelandair mjög mikið,“ segir Gústaf.

Hann segir að traust almennings á hlutabréfamarkaði hafi aukist mjög: „Það dró mjög úr því eftir hrun en traustið hefur smám saman verið að aukast síðan þá og það má segja að traustið hafi kannski aldrei verið meira en það er núna. Það á ríkan þátt í aukningu á fjölda viðskipta. Það er í sjálfu sér jákvætt því það gerir alla verðmyndun á hlutabréfamarkaði betri og skýrari.“ 

Á það einhvern þátt í verðhækkunum?
„Já, eflaust hefur það einhver áhrif en þótt það hafi fjölgað almennum hluthöfum þá á almenningur samt tiltölulega lítið beint vægi sem eigandi að hlutabréfum. Eign almennings í hlutabréfum er meiri í gegnum lífeyrissjóði og ýmsa fjárfestingasjóði og þar eru stóru peningarnir.“

Eðli kreppunnar speglast í markaðnum

Það að almenningur fari að kaupa hlutabréf í miðri djúpri kreppu, má segja að það sýni hvað byrðar kreppunnar dreifast ójafnt á landsmenn? Afmarkaður hópur missir vinnuna en hinir byrja að kaupa hlutabréf?

„Jújú, það er sem sérstakt við þessa kreppu, eins mikil og hún er, að þá er hún sértæk að því leyti að hún bitnar nær eingöngu á þeim sem missa vinnuna eða lenda í tekjusamdrætti. þeir sem eru enn með vinnu hafa það nokkuð gott, kaupmáttur er að hækka og fasteignaverð að hækka. Jú, það má segja að þetta sé birtingarmynd þess.“