„Heilmikið í bígerð og heilmikið sem er að ljúka“

22.02.2021 - 13:18
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Langanesbyggð stefnir á að framkvæma og fjárfesta í innviðum fyrir hundruð milljóna króna á næstu árum. Meðal verkefna eru dýpkun hafnarinnar á Þórshöfn og endurbætur á íþróttahúsi sem og viðgerð á hafnargarði á Bakkafirði.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við höfnina á Þórshöfn undanfarna mánuði. Nýlega var hafist handa við rúmlega 500 fermetra stækkun á fiskvinnslu Ísfélagsins. Þá er er hafin vinna við að dýpka höfnina. Sveitarstjórinn segir að miklar fjárfestingar séu framundan. 

Mörg verkefni í kortunum

„Það er heilmikið í bígerð og heilmikið sem er að ljúka. Þú sérð hafnardýpkunarprammann hérna fyrir aftan okkur. Þetta er búið að vera núna síðan í fyrravor og þessum framkvæmdum er að ljúka. Við ætlum að fara í framkvæmdir við íþróttahúsið. Við þurfum því miður að eyða einhvers staðar á bilinu 3-400 milljónum í að laga það,“ segir Jónas Egilsson, sveitarstjóri. 

Laga hafnargarð sem skemmdist í óveðri

En það er ekki bara á Þórshöfn sem staðið er í stórræðum þessa dagana því nú á að laga hafnargarðinn á Bakkafirði sem fór illa í desmber-óveðrinu 2019. „Svo erum við með Betri Bakkafjörð og þar meðal annars erum við að klára útsýnisstað og góða aðstöðu fyrir ferðamenn á hafnartanganum á Bakkafirði þannig að hér er mikið að gerast.“

„Við erum frekar afskipt, óneitanlega“

Jónas segir að þótt atvinnuástand sé gott í sveitarfélaginu sé mikil þörf þörf fyrir frekari uppbyggingu til að sporna gegn viðvarandi fólksfækkun. „Það hallar aðeins undan fæti fyrir okkur hérna, þvi miður, því hérna vantar innviði, okkur vantar ljósleiðara hingað til þess að geta verið með nýsköpun á því sviði og nýtt okkur þá tækni sem hún býður, því miður. Við erum frekar afskipt, óneitanlega. Pólitískt, efnahagslega og landfræðilega náttúrulega í huga fólks.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV