Margir gamlir létust í Svíþjóð
Tæplega 100 þúsund manns létust í Svíþjóð í fyrra sem er nærri átta prósentum meira en að meðaltali 2016-2019. Í hópi fólks sem er eldra en 75 ára var dánartíðnin í Svíþjóð í fyrra meir en 20 prósentum hærri en að meðaltali fjögur árin á undan.
Dánartíðni í Svíþjóð undir meðaltali í Evrópu
Sænskir miðlar segja að tölur Eurostat sýni að því fari fjarri að faraldurinn hafi leikið Svía harðar en aðrar Evrópuþjóðir. Fredrik Charpentier Ljungqvist, lektor við Stokkhólmsháskóla, segir að dánartíðnin í Svíþjóð sé raunar undir meðaltali Evrópuríkja. Það er hins vegar óumdeilt að Svíar hafa farið langverst Norðurlandaþjóða út úr COVID-19 faraldrinum.
Hlutfallslega flestir létust í Liechtenstein
Hlutfallslega flestir létust í Liechtenstein samkvæmt tölum Eurostat, þar var dánartíðni 20 prósentum hærri 2020 en fjögur árin á undan. Af fjölmennari ríkjum er dánartíðnin á Spáni og í Póllandi litlu minni. Andlát umfram meðaltal er 1,6 prósent á Íslandi og í Danmörku, en í Noregi létust núll komma fjórum 0,4 prósentum færri í fyrra en árin 2016-2019.