Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrsta platan tugi þúsunda króna virði

Mynd:  / 

Fyrsta platan tugi þúsunda króna virði

22.02.2021 - 15:22

Höfundar

Hljómsveitin The Vintage Caravan hefur setið á nýrri breiðskífu í tæpt ár en nú styttist loks í útgáfu. Platan heitir Monuments og kemur út 16. apríl. Fyrsta smáskífa plötunnar, lagið Whispers, er nú þegar komið í spilun og hefur hlotið góðar undirtektir.

The Vintage Caravan voru gestir í Stúdíói 12 á Rás 2 þar sem þeir fóru yfir gerð plötunnar og næstu skref. Hljómsveitina skipa þeir Óskar Logi Ágústsson sem syngur og spilar á gítar, Alexander Örn Númason sem spilar á bassa og Stefán Ari Stefánsson trommuleikari. 

Hljómsveitin lauk síðasta tónleikaferðalagi í nóvember 2019 og planið var að taka stutta pásu, taka upp plötu, og halda svo áfram að ferðast um heiminn. Þeir fóru því í hljóðver í febrúar 2020 en þegar upptökur kláruðust mánuði síðar blasti ný heimsmynd við þeim. Faraldurinn breytti framtíðaráætlunum þeirra umtalsvert. „Við vorum búnir að plana helling af tónleikum. Ætluðum að taka nokkra tónleika eftir plötuna, tónlistarhátíðir um sumarið og svo tónleikaferð um haustið,” segir Alexander Örn. 

Í fyrsta sinn í mörg ár gátu þeir því varið öllu sumrinu á Íslandi. „Maður reyndi að halda sér við andlega, hreyfa sig og svona,” segir Óskar Logi. Fríið gaf þeim góðan tíma í að nostra vel við plötuna og þeir eru mjög ánægðir með hvernig hún hljómar. „Þessi plata er örugglega sú fjölbreyttasta sem við höfum gert. Það eru rólegustu lögin á henni og líka þyngstu lögin. Þetta er skemmtilega heilsteypt verk,” segir Óskar Logi.

Englendingurinn Ian Davenport sá um að hljóðblanda plötuna en hann var efstur á óskalista þeirra þegar kom að velja mann á takkana. Davenport hefur áður unnið með Radiohead, hljómsveitunum Supergrass, Leaves og Band of Skulls svo fáein dæmi séu tekin. „Við gerðum lista, hvaða rokkplötur hljóma best og hver var upptökustjórinn. Við sendum honum tölvupóst og hann var til í þetta, segir Alexander Örn. Þar sem ekki var hægt að ferðast á milli landa þurfti að vinna plötuna mikið í gegnum tölvupósta sem tafði vinnuna töluvert. Þeir segja þó að það hafi ekki komið að sök. 

Þeir segja alls óvíst hvað taki við þegar að platan kemur út þann 16. apríl en eru vongóðir um að geta fylgt útgáfunni eftir með tónleikum. „Við leitum dálítið á náðir faraldursins, varðandi hvað við getum gert, segir Stefán. „Það er mjög líklegt, að í haust, verði tónleikar með undir 500 manns í Evrópu,” segir Alexander. Þeir vita þó ekki hvort eitthvað verði af fyrirhugaðri tónleikaferð með sænsku rokkrisunum í Opeth og þá er einnig óvíst hvað verður um fyrstu tónleikahátíðir sumarsins. 

Platan Monuments er fimmta breiðskífa The Vintage Caravan ef fyrsta breiðskífa þeirra er talin með. En hana gáfu þeir sjálfir út í afar takmörkuðu upplagi árið 2009. Sú plata er uppseld og orðin illfáanleg á netinu og því eftirsótt á meðal aðdáenda sveitarinnar. „Hún er orðin safngripur í dag. Þú getur selt hana fyrir ágætis pening. Sá eina fara á 30.000 krónur á dögunum,” segir Óskar Logi.

The Vintage Caravan voru gestir í Stúdíó 12 á Rás 2. Lögin sem þeir spiluðu voru:

  1. Whispers
  2. Reflections
  3. On the Run
  4. Crystalised
  5. Set Your Sights
  6. Expand Your Mind