Flutti á Þingeyri og tók húsið með sér í heilu lagi

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Flutti á Þingeyri og tók húsið með sér í heilu lagi

22.02.2021 - 07:30

Höfundar

Þegar Valdísi Evu Hjaltadóttur bauðst starf Blábankastjóra á Þingeyri þá tók hún húsið sitt með sér í heilu lagi. „Þessi tilfinning að eiga heima einhversstaðar - ég get tekið hana með hvert sem er,“ segir Valdís.

Þrettán fermetra hús

Húsið hennar Valdísar er aðeins 13 fermetrar og með sex fermetra svefnlofti. Það er hlýtt og notalegt í húsinu sem er heilsárshús. Valdís hefur átt það síðan 2018 en fór að kynna sér smáhýsi nokkru fyrr - þegar hún bjó í Danmörku. 

„Síðan flyt ég frá Danmörku til Íslands í bíl, og þetta komst semsagt allt fyrir í bíl, 12 kassar og eitt hjól. Og þessi tilfinning að vera bara á hjólum, og geta farið hvert sem mig langar - þetta var rosalegt.“

Hús á hjólum

Húsið er á hjólum og fellur að regluverki hjólhýsa hvað varðar hæð, lengd og þyngd - sem getur reynst praktískt. Þar sem það er ekki meira en 3,5 tonn eru nokkrar týpur af jeppum sem geta dregið það. 

Fleiri hús undir merkjum Vegdísar

Valdís hefur nú þegar hannað næstu útgáfu af smáhúsi undir merkjum Vegdísar. „Næsta hús er byggt á Íslandi úr trefjaplasti sem er miklu léttara og rosalega sterkt,“ það getur því verið stærra þótt það sé áfram undir 3,5 tonni.

„Eins og núna að geta tekið starf á Þingeyri án þess að blikka,“ segir Valdís. „Hvar sem ég er þá er ég alltaf heima hjá mér.“