Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fagna því að sjá fram á nýja flugstöð á Akureyri

Mynd: Isavia / Isavia
Talsmenn ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fagna því að sjá nú fram á nýja flugstöð, ásamt flughlaði á Akureyrarflugvelli, sem ákveðið er að taka í notkun vorið 2023. Framkvæmdir við byggingu flugstöðvar verða boðnar út í vor.

1.100 fermetra viðbygging og breytingar á núverandi flugstöð, ásamt stækkun flughlaðs á Akureyrarflugvelli, var hluti aðgerða sem stjórnvöld boðuðu til að verjast samdrætti vegna faraldursins. Þessi verkefni hófust bæði á síðasta ári og nú er unnið af fullum krafti við flughlað og Isavia hyggst bjóða út framkvæmdir við flugstöðina núna í vor. Stefnt er að því að viðbyggingin verði tilbúin í lok næsta árs og ný flugstöð verði opnuð vorið 2023. Það sama vor á að hefja malbikun á nýju flughlaði.

Forsenda frekari aukningar í millilandaflugi 

„Þessi uppbygging hérna er náttúrulega gríðarlega mikilvæg og forsenda þess að við getum haldið áfram þessarri vinnu okkar að auka hérna flug. Og í framtíðinni opnað hér varanlega gátt inn í landið,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnisstjóri Flugklasans Air66 hjá Markaðsstofu Norðurlands. „Þannig að þetta liggi núna allt fyrir, og komin tímalína á þetta, hefur auðvitað gríðarlega mikið að segja fyrir okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Isavia

Segir skipta miklu máli að geta sýnt fram á nýja aðstöðu

Hjalti segir að hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel, sem hóf að fljúga til Akureyrar 2019, bíði nú eftir því að heimsfaraldurinn gangi yfir svo hægt verði að hefja það flug á ný. Í sumar, ef aðstæður leyfi, en annars næsta vetur. „Við erum svo hér heima fyrir að vinna markvisst að því núna að kortleggja fleiri markaði í Evrópu með það fyrir augum að ná inn svipuðum flugum og hafa verið að koma frá Hollandi. Þar skiptir auðvitað miklu máli að hafa tímalínu yfir það hvenær ný aðstaða verður komin.“ 

Þrengslin í flugstöðinni fráhrindandi

Jafnan skapast mikil þrengsli í flugstöðinni þegar þurft hefur að afgreiða á sama tíma farþega úr innanlands- og millilandaflugi. Þetta hafa bæði innlendir og erlendir flugrekendur sett út á og talið óboðlegt. Þá er aðstaða fyrir bílaleigur takmörkuð í flugstöðinni og margt fleira sem plássleysið hefur haft áhrif á. „Flugstöðin er þröng og það er auðvitað fráhrindandi á meðan svo er. Þannig að ef við sjáum núna fram á stærri aðstöðu og bætta þá er það, eins og ég segi, allt annar veruleiki fyrir okkur að vinna með,“ segir Hjalti.

Innviðir sem komi öllum til góða

„Og auðvitað er það gríðarlegt fagnaðarefni að stjórnvöld hafi ákveðið að fjárfesta í þessum innviðum. Sem munu koma, ekki bara okkur hér fyrir norðan, heldur öllum landsmönnum til góða þegar fram í sækir,“ segir hann.