1.100 fermetra viðbygging og breytingar á núverandi flugstöð, ásamt stækkun flughlaðs á Akureyrarflugvelli, var hluti aðgerða sem stjórnvöld boðuðu til að verjast samdrætti vegna faraldursins. Þessi verkefni hófust bæði á síðasta ári og nú er unnið af fullum krafti við flughlað og Isavia hyggst bjóða út framkvæmdir við flugstöðina núna í vor. Stefnt er að því að viðbyggingin verði tilbúin í lok næsta árs og ný flugstöð verði opnuð vorið 2023. Það sama vor á að hefja malbikun á nýju flughlaði.
Forsenda frekari aukningar í millilandaflugi
„Þessi uppbygging hérna er náttúrulega gríðarlega mikilvæg og forsenda þess að við getum haldið áfram þessarri vinnu okkar að auka hérna flug. Og í framtíðinni opnað hér varanlega gátt inn í landið,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnisstjóri Flugklasans Air66 hjá Markaðsstofu Norðurlands. „Þannig að þetta liggi núna allt fyrir, og komin tímalína á þetta, hefur auðvitað gríðarlega mikið að segja fyrir okkur.“