Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Byrja að bólusetja fólk undir níræðu á nokkrum stöðum

22.02.2021 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að bólusetning landsmanna hafi gengið vel í síðustu viku. Seinni bólusetning fólks yfir níræðu fer fram í þessari viku en Þórólfur segir að á nokkrum stöðum verði hægt að byrja að bólusetja fólk á níræðisaldri.

Þetta sagði Þórólfur á fundi almannavarna í dag. „Bólusetningin gekk vel í síðustu viku. Í þessari viku er áætlað að bólusetja um 6.000 einstaklinga, bæði í fyrstu og seinni bólusetningu. Í þessari viku verður haldið áfram að bólusetja hópinn 90+ og á sumum stöðum verður hægt að byrja að bólusetja aldurshópinn 80+ með fyrstu bólusetningu. Einnig verða starfsmenn hjúkrunarheimila áfram bólusettir.“

Þórólfur sagði að fleiri yrðu líklega bólusettir í næstu viku. Ekki er komin dreifingaráætlun frá framleiðendum fyrir apríl og aðra mánuði í öðrum ársfjórðungi. Í máli Þórólfs kom fram að hann telur líklegt að bóluefnin fáist hraðar en áður var gert ráð fyrir. Fólk verði þó að búa sig undir að dreifingin geti orðið hægari en vonir standa til. 

Gæti orðið að kvefveiru í framtíðinni

Þórólfur sagði alls óvíst núna hvort bólusetja yrði árlega fyrir COVID-19 eftir að tök nást á faraldrinum. Hann sagði að COVID-19 gæti orðið svipuð og aðrar kórónuveirur. Hún gæti í framtíðinni orðið hálfgerð kvefveira þannig að þótt svo fólk smitaðist þá myndi það ekki endilega veikjast alvarlega. Þórólfur tók þó fram að um þetta ríkti mikil óvissa sem framtíðin ein skæri úr um. „Ég myndi spá því að hún yrði einhvern veginn á þann veg. Auðvitað veit ég ekkert um það og það veit enginn um það.“

Samkvæmt afhendingaráætlun er gert ráð fyrir að það takist að bólusetja 190 þúsund manns fyrir lok júní. Öllum 280 þúsund landsmönnum yfir fimmtán ára aldri verður boðin bólusetning áður en yfir lýkur.