Bretar slaka smám saman á sóttvörnum

22.02.2021 - 17:59
epa09009140 Ambulance staff push a bed with an patient outside the Royal London hospital in London, Britain, 13 February 2021. Britain's National health service (NHS) has been under sever pressure even as Covid-19 hospital admissions continue to fall across the UK.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska ríkisstjórnin kynnti í dag áætlun um að slaka smám saman á sóttvörnum með það að markmiði að lífið verði farið að ganga sinn vanagang fyrir lok júní. 

Strangar sóttvarnatilskipanir  hafa verið í gildi í Bretlandi síðastliðnar sjö vikur.  Boris Johnson forsætisráðherra sagði þegar hann kynnti áætlunina í neðri málstofu breska þingsins að full ástæða væri til að fara varlega í að slaka á vörnum gegn veirunni. Annars væri hætta á að allt færi í sama farið aftur.

Hann tók fram að áætlunin miðaðist við England, en bjóst við að svipað yrði uppi á teningnum í öðrum landshlutum. Ef allt gengur að óskum, sagði forsætisráðherra, verður lífið mun betra í vor og sumar en það er um þessar mundir. 

Samkvæmt áætluninni verður nemendum á Englandi heimilað að snúa aftur í skólann 8. mars. Frá 12. apríl mega kaupmenn opna verslanir að nýju og ýmsar þjónustustofnanir verða opnaðar. Frá 17. maí fá allt að tíu þúsund áhorfendur að mæta aftur á íþróttakappleiki og aðrar hópsamkomur. 21. júní verða reglur afnumdar sem banna fólki að hittast.

Boris Johnson forsætisráðherra sagði, þegar hann kynnti áætlunina, að dagsetningarnar væru þó ekki meitlaðar í stein. Ef aðstæður breyttust kynnu áformin að breytast líka.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV