Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ástand vega á höfuðborgarsvæðinu gott miðað við árstíma

22.02.2021 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ástand þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu virðist nokkuð gott miðað við árstíma. Miklu minna er nú um holur og skemmdir vegna samspils frosta og þíðu enda hefur veðurfar ekki verið með þeim hætti.

Þetta kemur fram á vef FÍB þar sem haft er eftir G. Pétri Matthíassyni upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar að minna sé um viðgerðir en vanalega á þessum árstíma. Þó hefur verið fjallað um að ástand vega á svæðinu sé bágborið.

Fyrir nokkrum dögum kom fram í samtali fréttastofu við Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, að meðal annars megi skýra ástand vega með niðurskurði eftir hrun. 

FÍB hefur eftir Pétri að starfsmenn í vetrareftirliti séu iðnir við að loka þeim holum sem tekið hafi að myndast áður en þær verða vandamál.

„Eru jafnvel farnir að loka smæstu holum og eru oftar en ekki með viðgerðarefni í bílnum þegar þeir eru á ferðinni að meta ástand vega yfir vetrarmánuðina.“