Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áhyggjufull af því að Karl og Dóra detta úr snjallsímum

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Blindir sem reiða sig á talgervla í snjallsímum hafa miklar áhyggjur af því að íslensku raddirnar Karl og Dóra verða brátt ekki lengur aðgengilegar í Android-símum. Unnið er að gerð nýs talgervils en hann verður ekki tilbúinn fyrr en eftir eitt til tvö ár. Kristinn Halldór Einarsson og Baldur Snær Sigurðsson, sem báðir eru lögblindir, hafa reitt sig á íslensku raddirnar við skjálestur og við alla notkun snjalltækja. Þegar þær detta út þarf að reiða sig á enskan talgervil.

Á degi íslenskrar tungu fyrir tæpum tíu árum heyrðust þau Karl og Dóra „tala“ í fyrsta sinn. Þessum áfanga var ákaft fagnað, einkum hjá þeim sem ekki geta lesið á hefðbundinn hátt. Núna heyra þó þessar talgervilsraddir brátt sögunni til, þ.e.a.s. í Android-snjalltækjum. Áfram verður unnt að nýta gervilinn í tölvum sem nota Windows-stýrikerfið. Blindir nýta raddirnar með því að merkja texta í vafra, tölvupósti eða skjali og þá les talgervilinn textann upphátt fyrir notandann.

„Blindrafélagið hafði forgöngu um að íslensku talgervilsraddirnar voru smíðaðar,“ segir Kristinn Halldór. Hann er formaður Blindrafélagsins. „Þær voru smíðaðar af pólsku fyrirtæki sem heitir IVONA. Þessir samningar um smíðina voru gerðir í lok árs 2010. Tveimur eða þremur árum seinna verður til Android-útgáfa af Dóru. Þá er allt í einu hægt að nota Dóru til að lesa texta á skjánum á símanum. Það var mikil framför vegna þess þá gat síminn sagt þér frá því hvar þú ert stödd eða staddur á símanum þó svo að þú sjáir ekki á skjáinn,“ segir Kristinn. 

Amazon ákvað að hætta viðhaldi með íslensku röddunum

„Á þessum tíma kostaði um 80 milljónir að láta smíða þetta. Árið 2013 kaupir Amazon þetta pólska fyrirtæki IVONA. Þá fengum við skilaboð um það að þjónustan myndi breytast allverulega og við gætum ekki treyst á það að þessar Android-raddir myndu lifa af. Núna eru raddirnar að detta upp fyrir,“ segir Kristinn.

Baldur Snær nýtir sér talgervilsraddirnar í símanum við ýmsar aðstæður. „Til þess að flakka um símann, lesa tölvupóst og jafnvel lesa fréttir og ýmislegt annað,“ segir Baldur. Missi hann íslensku raddirnar þarf hann að nota enskan talgervil. Þá hindrar það hann í því að skrifa tölvupósta á íslensku og fleira. 

„Við erum að lenda í vandræðum með Android-raddirnar núna vegna þess að þeim er ekki haldið við,“ segir Kristinn. Þess vegna er fólki sem reiðir sig á raddirnar ráðlagt að sækja sér ekki nýjar uppfærslur á stýrikerfi Android-símum. „Talgervilsraddir eru mjög mikilvægar fyrir blinda og sjónskerta til þess að veita þeim aðgang að upplýsingum á stafrænu formi,“ segir Kristinn.

Ætlum við að vera í samskiptum við tölvurnar á ensku eða íslensku?

Ríkisstjórnin hefur látið vinna skýrslu um máltækni. „Eitt af kjarnaverkefnunum í þessari áætlun er smíði á nýjum íslenskum talgervli, en samkvæmt áætluninni eiga þessir talgervlar ekki að verða tilbúnir fyrr en 2022. Ef fram fer sem horfir og íslensku raddirnar verða ekki lengur virkar mun það hafa áhrif á lífsgæði mjög margra. Við erum þá að fara einhver tíu ár til baka varðandi máltækniverkefni fyrir íslensku. Þannig að þetta er mikið stærra hagsmunamál en nokkurn tímann bara það sem snýr að blindum og sjónskertum og lesblindum. Þetta er bara spurningin: Ætlum við að vera í samskiptum við tölvurnar okkar á ensku eða íslensku?“ segir Kristinn.