Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Telja minni líkur á rallýi í Hálendisþjóðgarði

21.02.2021 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Akstursíþróttasamband Íslands er á meðal þeirra sem leggjast alfarið gegn stofnun Hálendisþjóðgarðs.

Alls hafa borist  155 umsagnir um frumvarpið.  Í umsögn Akstursíþróttasambands Íslands um frumvarpið segir að þjóðgarðsverðir hafi í flestum tilvikum hafnað óskum keppnishaldara um afnot af leiðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, jafnvel vega sem eru í eigu og viðhaldi Vegagerðarinnar.

Akstursíþróttasambandið telur því að það lofi ekki góðu ef setja eigi stóran hluta miðhálendisins undir stjórnvald sem hafi reynst neikvætt í garð íþróttarinnar. Margar af mest notuðu keppnisleiðum í rally lendi innan fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs eins og Dómadalur, Bjallarhraun, Hekla og Mælifellsdalur. Sambandið hvetji til ábyrgrar umgengni keppenda um landið og ávallt sé unnið í góðu samstarfi við yfirvöld um keppnishald.

Akstursíþróttasambandið segir að verði frumvarpið samþykkt sé nauðsynlegt að tryggja að hefðbundnar rallykeppnir verði áfram heimilar án þess að leita þurfi samþykkis þjóðgarðsvarða. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV