Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klæddu sig upp sem gamlar konur og fengu bóluefni

Mynd: EPA-EFE / EPA
Víða hefur komist upp um fólk nýlega sem svindlar sér fram fyrir forgangshópa í bólusetningaröðinni. Í flestum tilfellum eru það ráðamenn sem eiga sökina en þó ekki alltaf. Tvær konur Flórída klæddu sig upp sem gamlar konur og fengu fyrri sprautuna en voru nappaðar þegar þær ætluðu að fá þá seinni.

Nýr heilbrigðisráðherra tók við embætti í Argentínu í gær. Forveri hennar hrökklaðist úr embætti þegar í ljós kom að vinir og vandamenn höfðu fengið bólusetningu á undan forgangshópum. Upp komst um málið þegar þekktur blaðamaður sagðist hafa fengið sprautu eftir að hafa einfaldlega óskað eftir því við heilbrigðisráðherrann. Í Perú hefur komið á daginn að minnst 500 manns sem voru ekki á forgangslista fengu samt sem áður bólusetningu í leyni. Þeirra á meðal fyrrum forseti landsins og nokkrir fyrrverandi ráðherrar. 

En það eru ekki bara ráðamenn og fyrirmenni sem reyna að svindla sér fram fyrir forgangshópa. Lögreglan í Flórída í Bandaríkjunum rannsakar nú hvernig tveimur konum tókst að fá fyrri sprautuna af bóluefni. Konurnar eru 34 og 44 ára en þær fölsuðu persónuskilríki sín klæddu sig í hanska og settu á sig hatta og gleraugu. Lögreglan var kölluð til þegar starfsfólk áttaði sig á dulargervinu. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV