Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jákvæðar og neikvæðar hliðar á útilokunarmenningu

Mynd: Grafík / RÚV
Aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að svokölluð útilokunarmenning þar sem hópur fólks vekur athygli á ummælum eða hegðun sem þykir brjóta gegn samfélagslegum gildum færist í aukana. Rannsóknir á þessu fyrirbæri séu stutt á veg komnar og misjafnt hvort fræðimenn telji það jákvætt eða neikvætt.

„Þetta snýst um einhverskonar hópefli gegn einstaklingum, oft frægum einstaklingum. Þetta byrjar af einhverju afli í rauninni bara fyrir tíu árum síðan. Og þannig séð eru rannsóknir á þessu fyrirbæri skammt á veg komnar. Þær eru að hlaðast upp en hugtakið sem slíkt er ennþá mjög mikið á reiki,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen doktor og aðjúnkt í félagsfræði.

Hann segir þetta vera að aukast, bæði hér heima og erlendis.  „Tilfinningin er tvö, þrjú ár þar sem þetta er svona alltaf að aukast að einhverju leyti. Án þess að ég nefni þau þá erum við með fleiri og fleiri dæmi þar sem það er lokað fyrir einhverja þætti, fólki er sagt upp, það koma harðorðar yfirlýsingar, það koma afsökunarbeiðnir. Þetta er eitthvað sem maður sá ekki fyrir 10, 15 árum síðan.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Arnar Eggert Thoroddsen aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Tökum nokkur dæmi. Það vakti mikla athygli þegar Chris Harrison steig til hliðar sem stjórnandi bandarísku raunveruleikaþáttanna the Bachelor í síðustu viku. Harrison hefur verið kynnir og stjórnandi um 40 þáttaraða frá árinu 2002, þar sem hópur fólks keppist um hylli piparsveina eða meyja. Hann komst í klípu nýverið eftir að hafa stigið inn í umræðu um rasisma í tengslum við einn keppanda þáttanna. Mörgum þótti Harrison sýna fáfræði og tillitsleysi þegar hann varði keppandann. 

Spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres flutti langa afsökunarbeiðni í þætti sínum í september eftir fjölmargar ásakanir um að hafa komið illa fram við undirmenn og samstarfsfólk. Kollegi hennar Jimmy Fallon lenti á milli tannana á netverjum þegar mynd frá árinu 2000 skaut upp kollinum þar sem hann lék grínistann Chris Rock málaður svartur í framan. Líkt og Ellen baðst hann afsökunar.

Einhver hafa kallað eftir því að J.K. Rowling, höfundur hinna vinsælu Harry Potter-bóka, verði sniðgengin vegna skrifa á samfélagsmiðlum þar sem hún þótti gera lítið úr kynsegin- og transfólki. 

Nýtt fyrirbæri og enn í þróun

„Sumir fræðimenn líta þetta neikvæðum augum. Sumir jákvæðum augum. Flestir einhvers staðar þarna á milli af því að þetta er algjört jarðsprengjusvæði klippa út og það er svo erfitt að segja eitthvað algilt um þetta,“ segir Arnar Eggert. „Það neikvæða við þetta, ég bara hendi því út, er að fólk hefur átt það til að fara offari og fólk er líka komið dálítið á tærnar.“ 

Ýmislegt teljist þó jákvætt og nefnir Arnar Eggert #Metoo og mál Bills Cosby þar sem hópur kvenna hafi fengið ákveðin völd í krafti samfélagsmiðla. „Það stígur hópur fram og segir heyrðu þessi hegðun er bara ekki í boði lengur.“ Hann segir brýnt að taka inn í myndina að útilokunarmenning sé nýtt fyrirbæri og enn í þróun. „Og ég veit ekki hvað verður um þetta hugtak. Hvort það sé algjörlega hræðilegt eða stórkostlega jákvætt eftir allt saman,“ segir Arnar Eggert.