Mynd: EPA-EFE - MUNICH SECURITY CONFERENCE

Heitir því að bólusetja alla fullorðna fyrir lok júlí
21.02.2021 - 03:11
Allir fullorðnir Bretar fá boð um að mæta í fyrri hluta bólusetningar við COVID-19 fyrir lok júlí. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, heitir þessu. Hann heldur fund í dag með ráðgjöfum sínum þar sem talið er að leiðin að afléttingu takmarkana verði mörkuð, áður en sjálf áætlunin verður kláruð á morgun, mánudag, að sögn BBC.
Samkvæmt nýrri bólusetningaráætlun breskra stjórnvalda er reiknað með því að allir yfir 50 ára aldri og yngra fólk í áhættuhópum verði boðið í bólusetningu fyrir 15. apríl.
Yfir 17 milljónir hafa þegar fengið fyrsta skammt bóluefnis í Bretlandi, og nærri 600 þúsund hafa fengið báða skammtana.
Tilfellum hefur fækkað jafnt og þétt í Bretlandi undanfarið. Alls hafa rúmlega 4,1 milljón manna greinst með COVID-19, þar af greindust yfir tíu þúsund jákvæðir í gær. Fleiri en 120 þúsund eru látnir af völdum sjúkdómsins í landinu.