Heillaðist af Keikó og elti drauminn

Mynd: Edda Sif Pálsdóttir / RÚV/Landinn

Heillaðist af Keikó og elti drauminn

21.02.2021 - 20:00

Höfundar

Marga dreymdi um að vinna með höfrungum eftir að myndin um hinn íslenska Keikó, Free Willy, sló í gegn 1993. Flestir létu þar við sitja en ekki Kristín Viðja Harðardóttir sem reri að því öllum árum að landa draumastarfinu.

Viðja varð hugfangin af sambandi manna og dýra eftir að myndin kom út og man þann dag vel þegar Keikó var fluttur til landsins en þá var hún fjögurra ára. Hún fylgdist með öllum fréttum af háhyrningnum og þegar hún gat lá hún yfir myndböndum á netinu. 

Fann leiðir til að láta drauminn rætast

„Þetta varð svo stórt fyrir mér og ég gat ekki sleppt þessu. Sleppt þessum draumi að fá að upplifa þetta og þetta ágerðist með árunum,“ segir Viðja. Hún menntaði sig sem hvalaþjálfari og sótti sér reynslu bæði til Flórída og Spánar og þá komu fréttirnar. 

„Svo bara er ég ótrúlega heppin og kemst að því að það er verið að fara að flytja hvali til Íslands aftur! Ég var 100% viss um að ég þyrfti að flytja til útlanda til að vinna við þetta. Það er bara ótrúlega magnað að fá að upplifa drauminn hérna á Íslandi.“

Skemmtilegur vinnudagur

Vinnudagur Viðju með mjöldrunum felst í stuttu máli í að gefa þeim að borða, um 25 kíló af síld og loðnu fyrir hvora þeirra á dag, hafa ofan af fyrir þeim og passa að þeim líði vel. Þær fá þrautir og þjálfun, er hrósað fyrir hegðun sem þjálfararnir eru ánægðir með en önnur er hunsuð. 

Markmiðið er mjaldrarnir flytjist svo alfarið út í sjókvína í Klettsvík, þar sem þær prófuðu að vera í þrjá mánuði í haust, og hægt verði í framhaldinu að taka móti fleiri dýrum til Vestmannaeyja.