Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri tilkynningar um rottugang í heimsfaraldri

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Tilkynningar um rottugang hafa margfaldast milli ára í Danmörku nú þegar fleiri verja meiri tíma heimavið vegna heimsfaraldursins og sóttvarnaaðgerða.

Danska ríkisútvarpið fjalllar um þetta og hefur eftir meindýraeyði að mildari vetur í fyrra og lélegar frárennslislagnir hafi stuðlað að því að rottur hafi getað þrifist betur. Fólk verði hins vegar meira vart við rotturnar nú þegar fleiri eru heimavið en alla jafna. 

DR ræðir við Klaus Bundgaard sem lýsir því þegar hann sá fyrst rottu við húsið sitt og hafði samstundis samband við meindýraeyði í sveitarfélaginu Vejle þar sem hann býr. „Maður finnur til óöryggis, því að er rottan ein eða eru þær fleiri?“

Í sveitarfélaginu Vejle voru tilkynningar um rottugang 80 prósentum fleiri í fyrra en árið á undan, alls nærri 6.000 tilkynningar á einu ári. 

Fleiri sveitarfélög í Danmörku hafa fundið fyrir svipaðri þróun. Fyrri hluta ársins 2020 voru 40 prósentum fleiri rottutilkynningar á landsvísu en árið á undan.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV