„Erum að slást í öll þessi ár og úr varð ótrúleg saga“

Mynd: - / Aðsend

„Erum að slást í öll þessi ár og úr varð ótrúleg saga“

21.02.2021 - 10:15

Höfundar

Skúli Sigurðsson var á sextánda ári þegar hann greindist með eitilfrumukrabbamein. Það varð ljóst að eftir meðferðina væri óvíst að hann myndi einhvern tíma geta eignast börn. Eftir tíu tæknifrjóvganir og tilraun til ættleiðingar sem ekki varð, eignuðust hann og Erla Reynisdóttir kona hans fjögur börn á aðeins þremur árum. Þau vona að saga þeirra geti verið öðrum hvatning.

Skúli Sigurðsson og Erla Reynisdóttir höfðu lengi verið vinir þegar þau áttuðu sig á því að þau felldu hugi saman. Þau byrjuðu að vera saman árið 2004 þegar Erla var 26 og Skúli 28 ára og langaði fljótlega að stækka fjölskylduna og eignast börn saman. Þau höfðu þó ekki hugmynd um hve viðburðarík og erfið sú vegferð yrði, og enn síður hvernig hún myndi að lokum margborga sig. Erla og Skúli kíktu í Sunnudagssögur á Rás 2 og sögðu frá ótrúlegu barnaláninu sem lengi var óvíst hvort yrði. Hér má hlýða á viðtalið í heild inni í spilara RÚV.

Þurfti að taka pillu til að skila fóstrinu út

Það varð fljótlega ljóst að þetta yrði ekki auðvelt. Þau komust að því eftir að hafa reynt í svolítinn tíma að vegna krabbameinsmeðferðar Skúla væri hefðbundin leið mjög illfær. „Ég fór í eitthvað test og það var svona blaut tuska í andlitið,“ segir Skúli. „En við unnum úr þessu með jákvæðni og fórum þær leiðir sem þurfti að fara.“

Fljótlega eftir þessa niðurstöðu hófu þau svokallaða smásjárfrjóvgun hjá ART Medica. Í fyrstu voru þau mjög vongóð og allt gekk vel til að byrja með, Erla varð ófrísk. En svo fór að fóstrið hætti að þroskast og hún þurfti loks að taka pillu til að skila því út. „Það var mjög erfitt, ég man bara eftir því,“ segir hún. Þau héldu áfram að reyna og komust ansi nálægt en alltaf fór eitthvað úrskeiðis á meðgöngunni. Það tók verulegan toll bæði andlega og líkamlega fyrir Erlu. „Þetta var eiginlega högg en samt ekki. Við skutum í stöngina en vorum alveg að ná að skora markið fannst okkur. Þá hefst rússíbaninn svolítið.“

Þau voru alls ekki tilbúin að gefast upp svo þau héldu áfram að reyna ólíkar leiðir, en allt kom fyrir ekki. „Við vorum á leið í meðferð, nýkomin úr meðferð eða farin að senda aðra í meðferð. Það var alltaf meðferð,“ segir Erla glettin. „Lífið snerist um að undirbúa sig fyrir meðferð, undirbúa sig fyrir áfallið og eftirmeðferð, svo að byggja sig upp fyrir næstu meðferð.“

Allt í baklás eftir langt ættleiðingaferli

Þau ákváðu að opna fyrir möguleikann á að ættleiða og skráðu sig á biðlista. Þau fóru á námskeið og í sálfræðimat og ferlið var afar strangt en þau voru ákveðin. Þegar kom að því að velja það land sem þau vildu ættleiða frá völdu þau Kólumbíu og skráðu sig á kvöldnámskeið í spænsku. Allt leit út fyrir að það ætti að geta gengið vel og þegar þau voru orðin vongóð um að loksins væru hlutirnir að fara á skrið kom annað högg. „Svo gerðist eitthvað í Kólumbíu. Þau voru að rannsaka mansal eða eitthvað og það var allt stoppað einmitt þegar við vorum komin á þröskuldinn,“ rifjar Skúli upp.

Eftir margar tæknifrjóvganir og erfitt ættleiðingarferli sem strandaði, ákváðu að taka sér pásu frá barneignaáformum og fóru í ferðalag saman. „Við ákváðum að setja þetta til hliðar og hætta að hugsa um þetta,“ segir Skúli. „Maður varð heltekinn af þessu,“ tekur Erla undir.

Vissi ekki einu sinni hvort þetta væri drengur eða stúlka

Skúli hafði verið hikandi þegar Erla stakk upp á að þau gæfu kost á sér sem fósturforeldrar. Hann óttaðist að tengjast barninu mikið og hugsaði um hve sárt það yrði að missa það svo frá sér. Blessunarlega samþykkti hann þó að slá til og annað ferli fór í gang. Þau fóru á krefjandi en nauðsynlegt námskeið á vegum Barnaverndarstofu og fengu fólk í heimsókn sem var að taka út heimilisaðstæður. Allt kom vel út úr því.

Þegar þau áttu síst von á því, voru nýkomin heim úr ferðalagi til Mexíkó, fengu þau símtal. Erla var í vinnunni þegar hún svaraði símanum og var tilkynnt að sjö daga gamalt barn leitaði fósturforeldra. Þau Skúli voru beðin um að koma á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur. „Ég man að ég missti hnén, byrjaði að titra og skjálfa,“ rifjar Erla upp. „Ég gat ekki spurt neitt, sagði bara „kem.“ Ég vissi ekki einu sinni hvort þetta væri drengur eða stúlka.“

„Stóðum yfir honum, horfðum á hvort annað og horfðum á hann“

Hún hringdi í Skúla og þau brunuðu af stað á fundinn. Þar var þeim sagt að hugsa málið og þau fóru út í bíl, keyrðu einn hring á bílastæðinu en það þurfti ekki meira til. „Við komum til baka og sögðum: Við erum til í þetta.“ Þau fóru út í búð og keyptu bílstól og héldu svo heim með drenginn.

Á leiðinni hringdu þau í foreldra og vini og sögðust vera með kornabarn með sér. Þegar heim var komið var vagga á stofugólfinu og hrúga af barnafötum sem fjölskylda og vinir höfðu safnað saman í einum hvelli fyrir parið. Þau fundu mikinn stuðning. „Það voru allir að bíða eftir þessu með okkur,“ segir Erla.

Þau voru orðin þrjú og trúðu varla sínum eigin augum þegar þau horfðu á drenginn sinn sofa í vöggunni. „Við stóðum bara yfir honum og horfðum á hvort annað, og horfðum á hann,“ segir Skúli. Strákurinn dafnaði og allt gekk eins og í sögu.

Það barst í tal einn daginn að þau ættu enn inni einn fósturvísi hjá ART Medica og ákváðu að nýta sér þann síðasta möguleika því þau hefðu engu að tapa. „Við hugsuðum: Af hverju ekki að klára það bara og þá er það búið,“ segir Skúli.

Tíunda tilraun bar árangur: „Hvað er að gerast hérna?“

Það var tíunda tilraun þeirra til að eignast barn á þann hátt og væntingarnar voru litlar. Ólíkt fyrri tilraunum settu þau þó alls ekki eins mikla pressu á árangurinn og áður því nú voru þau komin með lítinn dreng á heimilið og orðin fjölskylda. „En auðvitað tókst það bara,“ segir Erla. Það var dásamlegt að fá að upplifa það að vera ófrísk og ganga með barn. Meðgangan gekk vel og þau eignuðust stelpu þegar strákurinn þeirra var átján mánaða. „Þarna var þetta orðið bara vá, geggjað. Hvað er að gerast hérna?“ hugsaði Skúli.

Á einu og hálfu ári voru þau því orðin fjögurra manna fjölskylda og ákváðu þá að stækka við sig. Þau keyptu sér hús og fluttu inn með börnin tvö árið 2015.

Tók óléttupróf á salerninu í Nettó

Þau ætluðu að gera sér glaðan dag og fá pössun fyrir börnin í fyrsta skipti. Þau voru að fá vinafólk í heimsókn og hlökkuðu til þess að eiga ljúfa kvöldstund. Erla áttar sig þá á að það er eitthvað furðulegt á seyði og segir Skúla að hún hafi ekki byrjað á blæðingum á réttum tíma.

Á þessum tíma voru þau ekki í neinni frjósemismeðferð heldur bara ánægð með að vera fjögur og sáu fyrir sér að vera það áfram. Í ljósi þess hve illa hafði gengið fyrir þau að eignast dóttur sína töldu þau þó afar ólíklegt að Erla væri ófrísk. Hún ákvað samt að fara í Nettó og kaupa óléttupróf. Henni lá svo á að fá niðurstöðurnar að hún tók prófið á salerninu í Nettó. „Það er bara blússandi jákvætt,“ segir Erla. „Ég byrja að titra og skjálfa, sest fyrir utan og hringi í hann. Segi bara: Ég er ólétt. Ég var í sjokki.“

Reyndist ganga með tvíbura: „Kraftaverk og ekkert annað“

Erla fékk tíma hjá ART Medica, mætti þangað með sex mánaða dóttur sína með sér og spurði, enn gáttuð, hvernig þetta væri hægt. „Við erum búin að reyna í öll þessi ár, á þetta bara að virka?“ Læknirinn segir að það geti ýmislegt gerst, skoðar hana og það kemur á hann einhver svipur. „Já, þú ert ólétt en það eru ekki einu fréttirnar. Ég sé hérna tvö.“ Ljóst varð að Erla gengi með tvíbura. „Kraftaverk og ekkert annað held ég,“ segir Skúli.

Sex manna fjölskylda á lítilli rútu

Í dag eiga Erla og Skúli fjögur börn, son fæddan 2013, dóttur fædda 2014 og tvíburadætur fæddar 2015. Það er því líf og fjör á heimilinu. Þau keyra um á lítilli rútu með allan krakkaskarann og lukkan snýst með þeim. Börnin eru öll heilbrigð og allt gengur eins og í lygasögu.

Þegar þau voru að ganga í gegnum erfitt ferli í öll þessi ár heyrðu þau stundum kraftaverkasögur um aðra sem hafði tekist að eignast börn þegar öll sund virtust lokuð. „Svo er maður orðinn þessi saga í dag sem er skrýtið,“ segir Erla sem finnur mikið til með þeim sem eru í dag á þeim stað sem þau voru á fyrir nokkrum árum. „Mér finnst ég ofboðslega lánsöm að eiga fjögur börn í dag og hjartað mitt blæðir með þeim sem eiga við þetta.“

Tilgangurinn að vera hvatning fyrir aðra

Skúli tekur undir og segir að þau hafi viljað að viðtal við þau hefði þann tilgang að geta orðið hvatning fyrir aðra sem eru í svipuðum sporum og þau voru í. „Tilgangurinn er kannski sá að sýna að það er von fyrir alla þó það sé ekki hægt að gefa nein loforð. Þarna erum við að slást í öll þessi ár og úr verður ótrúleg saga,“ segir hann. „Ef þetta viðtal gefur einhverjum byr undir sína vængi og ef það er einhver þarna úti sem er alveg að bugast - reyndu aðeins meira. Gefðu þessu meiri tíma,“ segir hann. „Eða prófaðu aðra leið,“ tekur Erla undir.

Þau vonast til að saga þeirra geti verið öðrum pörum hvatning og veiti von, en fjölmargir glíma við ófrjósemi af ýmsum toga og málefnið er mjög viðkvæmt. Þó ítreka þau bæði að lokum að auðvitað sé ekkert öruggt að baráttan muni bera eins ríkulegan ávöxt að lokum fyrir alla eins og í þeirra tilviki.

Hulda Geirsdóttir ræddi við Skúla og Erlu í Sunnudagssögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Efast um að aðrir lögmenn viti um tvöfalt líf hennar

Tónlist

„Þetta var engin smá vinna, bara bleyjuþvotturinn”