Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bólusetningardagatalið - 167 þúsund í forgangshópum

21.02.2021 - 18:45
Mynd: RÚV - Geir Ólafsson / RÚV
Bretar stefna að því að bólusetja alla fyrir júlílok, Danir stefna að því að klára bólusetningu mánuði á undan en Íslendingar ganga ekki eins langt en stefna að minnsta kosti að ná 190 þúsund manns. Margar þjóðir birta nú bólusetningadagatöl. 

Boðið í bólusetningu fyrir júlílok í Bretlandi

Samkvæmt nýrri bólusetningaráætlun breskra stjórnvalda verður öllum fullorðnum boðið í bólusetningu fyrir lok júlímánaðar. Þegar hafa yfir 17 milljónir Breta fengið fyrsta skammt bóluefnis í Bretlandi, og nærri 600 þúsund hafa fengið báða skammtana. Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands sagði í dag að stjórnvöld vilji leggja fram áætlun til þess að sýna almenningi hvernig hægt verði að aflétta takmörkunum skref fyrir skref.

Búið að bólusetja alla í Danmörku í júnílok

Bólusetning gengur vel í Danmörku. Heilbrigðisyfirvöld uppfæra bólusetningadagatalið reglulega. Á föstudaginn leit dagatalið svona út. Byrjað verður á bólusetja fólk á aldrinum 16 til 64 ára sem ekki er í forgangshópum í maí og stefnt að því að búið verða að bólusetja alla Dani eldri en 15 ára í júnílok eða 4,8 milljónir. Dagatalið er þó með mörgum fyrirvörum.

280 þúsund verða bólusett á Íslandi

Öllum eldri en 15 ára hérlendis verður boðin bólusetning. Það eru 280 þúsund manns. Fyrsta útgáfa íslenska bólusetningardagatalsins frá því á föstudag sýnir ekki fjölda í hverjum bólusetningarhópi eins og er í danska dagatalinu. 

Minnst hægt að bólusetja 190 þúsund 

Samkvæmt afhendingaráætlunum þeirra bóluefna sem þegar hafa fengið markaðsleyfi þá er gert ráð fyrir að hægt verði að bólusetja samtals 190 þúsund manns fyrir júnílok. Ekki víst hvort átt er við að allir þessir 190 þúsund hafi fengið seinni skammtinn þá. 

En það er von á meira bóluefni fyrir mitt ár frá CureVac, Janssen og Novavax en þau eru eftir að fá markaðsleyfi. Heilbrigðisráðuneytið gerir ráð fyrir skömmtum frá þessum framleiðendum í dagatali sínu. 

60 prósent eru í forgangshópum

Áætlað er að í forgangshópumum séu 167.500 manns. Það er 60% af hundraði þeirra sem á að bólusetja því þeir eru 280 þúsund. Bólusetningu fyrsta forgangshóps er lokið en í honum eru 1.000 manns. Í næstu fjórum forgangshópum eru tæplega 20 þúsund manns og bólusetning hafin og jafnvel lokið í þeim. Í næstu fjórum hópum er fólk sextugt og eldra. Það eru samtals 72 þúsund og búið er að bólusetja elsta hópinn. 54 þúsund manns eru með undirliggjandi sjúkdóma. Kennarar og félagsþjónustufólk er um 20 þúsund. Og eitt þúsund manns eru í erfiðri félags- og efnahagslegri stöðu. 
Allir aðrir 16 ára og eldri eru svo í síðasta hópnum. 

Ekki er hægt að sjá á dagatalinu hvort náist að bólusetja meirihluta þjóðarinnar fyrir mitt ár enda er enn margt óljóst.