Það er aldrei nein endurtekning í leikhúsinu

Mynd: Menningin / RÚV

Það er aldrei nein endurtekning í leikhúsinu

20.02.2021 - 09:00

Höfundar

Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir útskrifuðust saman úr Leiklistarskóla Íslands árið 1981. Þau halda upp á 40 ára leikafmæli með því að takast á við eitt af meistarastykkjum 20. aldar, Sölumaður deyr eftir Arthur Miller.

Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir eru með farsælustu leikurum sinnar kynslóðar og hafa leikið í fjölda leiksýninga, kvikmynda og sjónvarpsþátta. Þau hittust fyrst í inntökuprófum nýstofnaðs Leiklistarskóla Íslands árið 1977. 

„Við vorum látin spinna dálítið mikið sem par í inntökuprófunum, ýmsir spunar sem áttu sér stað þar,“ segir Sigrún Edda sposk. Hún segist alltaf svara á sama veg þegar hún er spurð hvað rak hana í leiklistarnám.   

„Það er skortur á ímyndunarafli. Ég ólst upp í leikhúsinu og datt fátt annað í hug en að fara að læra þessa listgrein.“  

Jóhann hafði hins vegar aldrei komið nálægt leiklist þegar hann sótti um.

„Ég er ekki að ljúga því að ég kom beint af götunni. Það voru auglýst inntökupróf í Leiklistarskóla leikhúsanna þremur árum áður. Ég fór þangað og beið fram í anddyri. Smám saman fylltist allt af fólki, ég sá Gísla Rúnar og Eddu Björgvins og fleira fólk sem var orðið voðalega frægt. Ég var bara átján ára og smám saman bognaði ég og labbaði út. Ég sótti svo um aftur 1977. En auðvitað var þetta draumur, ég var búinn að ganga með auglýsinguna í veskinu í þrjú ár.“  

Jóhann og Sigrún Edda fengu strax nóg að gera eftir útskrift árið 1981 og hafa leiðir þeirra oft legið saman síðan þá, ekki síst undanfarin áratug þar sem þau hafa leikið saman í fjölmörgum sýningum í Borgarleikhúsinu.  

Jóhann segir leiklistina gefandi starf sem sé stundum erfitt en aldrei leiðinlegt.   

„Það er alltaf spennandi að takast á við nýtt verk þegar kallið kemur. Maður verður alltaf spenntur.“  

Sigrún Edda segir ekki endilega stórir leiksigrar sem standi upp úr á ferlinum.  

„Kannski frekar einhver ný nálgun eða hópur sem er spennandi. Sumt í leiklistinni, sem var smátt, varð að einhverju stóru og dýrmætu sem maður lærði af. Það eru kannski mistökin sem standa upp úr því þar tók maður næsta skref.“  

„Maður er alltaf að fást við nýja hluti og kynnast nýju fólki. Það er engin endurtekning til í leikhúsinu.Þótt maður endurtaki sömu rulluna kvöld eftir kvöld þá er hún aldrei eins, það er alltaf eitthvað dirr í loftinu. Það er það sem heldur mér gangandi.“   

Á laugardag takast þau á við enn eitt þungavigtarverkið. Sölumaður deyr eftir Arthur Miller, eitt af meistaraverkum 20. aldar, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Verkið fjallar um Willie Loman, sölumann sem er komin af besta aldri og lítur á líf sitt sem misheppnað. Hann ákveður að stytta sér aldur og dulbúa það sem slys svo eiginkona hans og synir geti lifað af líftryggingunni.  

Jóhann segir hlutverkið kalla á alla hans reynslu og getu. „Ég þarf mig allan óskiptan til að geta tekist á við þetta.“  

Sigrún Edda segist þakklát fyrir að fá svona bitastætt verk að kljást við á starfsafmælinu. 

„Að fá að fást við Arthur Miller er bara gjöf, ekki síst fyrir leikara sem eru komnir á okkar aldur. Svo vonum við að við getum fengið að sýna þetta verk þannig að sem flestir fái að njóta.“

Rætt var við Jóhann og Sigrúnu Eddu í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.