Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sá níundi í gæsluvarðhald vegna morðsins í Rauðagerði

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald, til föstudagsins 26. febrúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á morðsins á Armando Bequiri í Rauðagerði um síðustu helgi.

Maðurinn er sá níundi sem er úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins.

Armando var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði í Reykjavík á laugardagsnótt. Talið er að morðinginn hafi beðið eftir honum fyrir utan heimili hans og skotið hann margsinnis, meðal annars í hnakkann, með skammbyssu sem var að öllum líkindum með hljóðdeyfi. 

Þau átta sem fyrir voru í gæsluvarðhaldi eru frá sjö löndum; Íslandi, Albaníu, Litháen, Eistlandi, Rúmeníu, Portúgal og Spáni, flestir frá Albaníu. Þjóðerni mannsins sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald í dag hefur ekki fengist gefið upp.