Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherra rekinn fyrir að redda vinum sínum bólusetningu

epaselect epa09024618 Justina Blanca Nuñez, 81, is vaccinated against covid-19 in Buenos Aires, Argentina 19 February 2021. Argentina began to deploy the vaccination operation against covid-19 for older adults after the arrival in recent days of more doses of vaccines.  EPA-EFE/Juan Ignacio Roncoroni
Hún Justina Blanca Nuñez er 81 árs og því í fullum rétti til að fá seinni bóluefnisskammtinn sinn, sem hún fékk í Buenos Aires á föstudag. Það á ekki við um alla vini heilbrigðisráðherrans, sem nú hefur mátt taka pokann sinn fyrir að smygla þeim framfyrir heilbriðgisstarfsfólk og aldraða í bólusetningarröðinni.  Mynd: EPA-EFE - EFE
Alberto Fernández, forseti Argentínu, fór í gærkvöld fram á afsögn heilbrigðisráðherra landsins vegna trúnaðarbrests og grun um spillingu. Ginés González García, varð uppvís að því að hleypa vinum og vandamönnum fram fyrir í bólusetningarröðinni. Ráðherrann hefur þegar farið að tilmælum forsetans og sagt af sér embætti.

Braut gegn eigin reglum

Þar til á miðvikudag takmarkaðist bólusetning í Argentínu við heilbrigðisstarfsfólk, samkvæmt fyrirmælum yfirvalda, sem í þessu tilfelli er heilbrigðisráðuneytið. 

Á miðvikudag var svo byrjað að bólusetja fólk 70 ára og eldra í Buenos Aires. Upp komst um hneykslið þegar blaðamaðurinn Horacio Verbitsky, sem er 71 árs, stærði sig af því í útvarpsviðtali að hann hefði verið bólusettur talsvert fyrr, þar sem hann væri vinur heilbrigðisráðherrans.

Samkvæmt argentínskum fjölmiðlum hafa fleiri verið bólusett, sem ekki eru í forgangshópum en þeim mun betur tengd háttsettum stjórnmálamönnum, ráðherrum í ríkisstjórninni þar á meðal. 

Tvær milljónir smita, 5.000 dauðsföll

Um tvær milljónir manna hafa greinst með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 í Argentínu og yfir 5.000 dáið úr sjúkdómnum. Bólusetning hófst í landinu, þar sem um 44 milljónir búa, í desember.

Forsetinn Fernandez var á meðal fyrstu manna sem sprautaður var með bóluefninu sem notað er. Það var meðal annars gert til að sannfæra almenning um öryggi bólusetningarinnar, en Argentína er á meðal þeirra ríkja sem veðjað hafa á hið rússneska Spútnik í baráttunni við faraldurinn.