
Meira en 142-faldur munur á COVID-nýgengi
Með nýgengi smita er átt við hversu margir hafa greinst undanfarna 14 daga af hverjum 100.000 íbúum. Í tölum Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar fyrir síðustu viku er nýgengi innanlands- og landamærasmita lagt saman, nýjustu tölur á vefsíðunni COVID.is eru síðan í fyrradag og þá var nýgengið samtals 6,8 - 2,2 innanlands og 4,6 á landamærunum. Hæst varð nýgengið hér á landi 17. október þegar það var 308.
Langhæsta nýgengið er í Tékklandi þar sem það er rúmlega 968, meira en 142 sinnum hærra en hér á landi. Næsthæst er það í Eistlandi þar sem nýgengistalan er 649 og þá eru Slóvakía, Portúgal og Spánn öll með nýgengi yfir 500.
Einu löndin í Evrópu, sem eru með nýgengi um eða undir 100 eru Norðurlöndin. Öll Norðurlöndin, nema Svíþjóð, eru með nýgengi um eða lægra en 100. Í Noregi er það 66, Í Finnlandi 88 og í Danmörku er það rétt um 100. Í Svíþjóð er nýgengið 396.
Ísland og hlutar af Noregi eru einu svæðin sem merkt eru græn samkvæmt skilgreiningu sóttvarnastofnunarinnar, en þann lit fá þau lönd þar sem nýgengið er lægra en 25 og hlutfall jákvæðra sýna lægra en 4%.