Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kvikmyndanám á háskólastigi verður í Listaháskólanum

Kvikmyndanám á háskólastigi verður í Listaháskólanum

20.02.2021 - 19:27

Höfundar

Kvikmyndanám á háskólastigi verður hjá Listaháskóla Íslands samkvæmt ákvörðun menntamálaráðherra.

 

Bæði Listaháskólinn og Kvikmyndaskóli Íslands sóttust eftir að fá námið til sín og hefur niðurstöðu verið beðið. Samkvæmt svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu er staðfest að ráðherra hafi ákveðið að undirbúningur skuli hafinn að gerð samnings við Listaháskólann og hafi ráðuneytið óskað eftir formlegri heimild fjármála- og efnahagsráðuneytisins til slíkrar samningagerðar.

Á dögunum sendu á sjötta tug kvikmyndagerðarfólks menntamálaráðherra bréf þar sem skorað var á ráðherrann að fela Listaháskólanum að sjá um námið. Í svarbréfi ráðherra í þessari viku segir að ákveðið hafi verið að semja við Listahá skólann um að annast kvikmyndanám á háskólastigi og að frumathugun vegna samningagerðar hafi verið send fjármálaráðuneytinu til yfirferðar og samþykktar. Hvað fjármögnun varði þá sé gert ráð fyrir því að kvikmyndanám á haustönn 2021 verði fjármagnað af ónýttri styrkveitingu til undirbúnings stofnunar kvikmyndadeildar við Listaháskóla Íslands, en að árin 2022 og 2023 verði kostnaður við kvikmyndanám fjármagnaður af gildandi fjárheimildum fjárlaga í málaflokki um háskóla og rannsóknarstarfsemi.