
Kielsen ætlar enn á þing fyrir Siumut
Í frétt blaðsins segist hann telja sig skuldbundinn kjósendum til að standa sína plikt, svo lengi sem hann hafi áhuga og orku til að vinna í þeirra þágu. Kielsen, sem er hálfsextugur, fékk 2.183 persónuatkvæði í kosningunum 2018 og átti stóran þátt í því að tryggja Siumut nauman sigur yfir erkifjendunum í Inuit Ataqatigiit, með 7.957 atkvæðum gegn 7.478.
Umdeildur þungavigtarmaður
Hann hefur verið þungavigtarmaður í grænlenskum stjórnmálum um langt árabil og formaður Siumut-flokksins síðan 2014. Nokkurrar óánægju var þó tekið að gæta með forystu Kielsens í flokknum og á haustdögum tapaði hann formannskosningum gegn áskorandanum Erik Jensen.
Kielsen neitaði engu að síður að víkja úr forsæti landsstjórnarinnar, sem liðaðist að lokum í sundur fyrir rúmri viku. Í framhaldinu var boðað til þingkosninga samhliða sveitarstjórnarkosningunum 6. apríl næstkomandi, þótt ár lifi af kjörtímabilinu.