Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsnæði í eigu Borgarbyggðar rýmt - talið hættulegt

20.02.2021 - 16:21
Mynd: Skjáskot / RÚV
Borgarbyggð hefur gefið fimmtán fyrirtækjum og stofnunum sem eru með starfsemi í húsinu Brákarey í Borgarnesi örfáa daga til að koma sér út. Mikil hætta er á eld og slysum, mati eldvarnareftirlits slökkviliðsins. Byggðarráð hefur falið sveitarstjóra að fá tilboð í úttekt á húsnæðinu þannig að hægt sé að meta þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að fara í til að tryggja öryggi og heimila starfsemi í húsinu að nýju.

Úttekt eldvarnareftirlits Slökkviliðs Borgarbyggðar á húsnæðinu, sem er við Brákarbraut 25 og 27, var lögð fram á fundi byggðarráðs á fimmtudag. 

Þar eru til húsa skotsvæði Skotfélags Vesturlands, Golfklúbbur Borgarness, Ikan frumkvöðlasetur og Fornbílafélag Borgarfjarðar, svo fátt eitt sé nefnt.

Í úttektinni er farið ítarlega yfir stöðu mála í hverju hólfi fyrir sig og niðurstaða eldvarnareftirlitsins sú að varla stendur steinn yfir steini. Loka eigi fyrir alla starfsemi þar sem mikil hætta sé á eld og slysum. „Ekki er viðunandi að starfsemi sé í húsnæðinu á meðan ástandið er líkt og það er í dag.“

Eftirlitið gerir sérstakar athugasemdir við starfsemi frumkvöðlasetursins. Þar sé unnið með eitt eldfimasta efni sem fyrirfinnst í töluverðu magni og það eigi ekki með nokkru móti heima svo nálægt íbúðabyggð.

Slökkvivatn sé í takmörkuðu magni og ekki sé nægilegur búnaður til hjá slökkviliði til að ráða við það verkefni ef eldur kæmi upp.  „Í raun er hægt að segja að ekki séu brunavarnir yfir höfuð í húsnæðinu,“ segir í skýrslunni.

Slökkviliðið virðist hafa miklar áhyggjur því það leggur til að fylgst verði með umgangi til að tryggja að ekki sé farið þar inn í leyfisleysi.

Ljóst er að lokunin kemur illa við marga. Forsvarsmaður skotfélagsins segir í bréfi til bæjaryfirvalda að þessar aðgerðir útiloki félagsmenn frá þeirra einu aðstöðu.  Verði henni lokað varanlega sé ljóst að þar glatist miklir fjármunir sem félagsmenn hafi lagt til.

Forsvarsmaður Golfklúbbs Borgarness segir að fyrirvaralaus lokun á aðstöðu klúbbsins hafi í för með sér verulegt tekjutap auk þess sem hún hafi mikil félagsleg áhrif á þá sem þarna hafi vanið komur sínar.

Eldri borgarar hafi til að mynda lagt fé til uppbyggingar á púttaðstöðu, bæði persónulega og úr félagssjóði sínum.  Borgarbyggð beri ábyrgð gagnvart golfklúbbnum sem áskilji sér allan rétt í málinu.

Fjallað verður um málið í kvöldfréttum RÚV þar sem Elsa María Guðlaugs-Drífudóttir, fréttamaður RÚV, ræðir við Þórdísi Sif Sigurðardóttur, sveitarstjóra Borgarbyggðar.

Fréttina er hægt að sjá hér að ofan.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV