Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fyrirkomulag leghálsskimana „aðför að heilsu kvenna“

20.02.2021 - 18:18
Varaformaður Læknaráðs Landspítala segir það fyrirkomulag að senda leghálssýni úr landi til greiningar vera aðför að heilsu kvenna. Læknaráð sjái sig knúið til að vekja athygli á því að stórslys sé í uppsiglingu. Þúsund leghálssýni sem tekin voru í janúar og febrúar hafa enn ekki verið send til greiningar í Danmörku.

Segja stórslys í uppsiglingu

Læknaráð Landspítala lýsir þungum áhyggjum vegna þess að vinnsla leghálssýna í krabbameinsleit hafi verið flutt úr landi, þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Ráðið ræddi málið í gær. „Þá sá læknaráð sig knúið til þess að vekja athygli á málinu og reyna allt til þess að geta snúið þessu stórslysi sem er í uppsiglingu við,“ segir Gunnar Bjarni Ragnarsson, formaður félags krabbameinslækna og varaformaður Læknaráðs LSH.

Heilsugæslan tók yfir leghálsskimanir frá Krabbameinsfélaginu um áramótin. Þá stóðu eftir tvö þúsund og fjögur hundruð sýni ógreind, en þau voru í lok janúar flutt á rannsóknarstofu í Danmörku. Í vikunni lýsti Óskar Reykdalsson forstjóri heilsugæslunnar áhyggjum af seinagangi við greiningar. Óskar segir í samtali við fréttastofu að búið sé að greina helming sýnanna, sem eru sum frá í nóvember, önnur klárist í næstu viku.  „Í mínum augum er þetta aðför að heilsu kvenna í landinu. Þetta er krabbamein sem bara konur geta fengið,“ segir Gunnar Bjarni.

Hafna því að það sé öruggara að senda sýnin út

Rökin fyrir því að senda sýnin út segja stjórnvöld vera til að tryggja öryggi og gæði rannsókna miðað við erlend öryggisviðmið. Rannsóknarstofur þurfi að greina ákveðið lágmark sýna sem náist ekki hérlendis. Þá sé það ódýrara. „Við höfnum þessum rökum og þessum rökum hefur verið hafnað af öllum sem best til þekkja af öllum þeim sérfræðingum sem sinna þessum málum,“ segir Gunnar Bjarni jafnframt.

Félag íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingarlækna og félag lífeindafræðinga hafa meðal annarra hafa komist að þeirri niðurstöðu að greiningu sýnanna yrði best borgið hérlendis, meðal annars vegna þess að mikilvæg þekking tapist annars. Þá sé óhagræði í að bera ný sýni saman við eldri sýni. „Og það er ekki hægt að tryggja það ef þetta verður staðsett í öðru landi.“

Þúsund ógreind sýni frá áramótum

Rúm þúsund sýni kvenna sem fóru í leghálsskimun í janúar og febrúar eru enn ógreind á Íslandi. Til stendur að senda þau til Danmerkur eins og hin en fyrst þarf að handmerkja þau, segir Óskar, en unnið er að því að forrita tölvukerfi sem muni flýta fyrir. Í vikunni var undirritaður samningur til þriggja ára við danska greiningarfyrirtækið. Stefnt er að því að niðurstaða sýnatöku liggi fyrir á fjórum vikum. „Það er hins vegar mjög erfitt að treysta á það. Það er reynsla lækna sem hafa sinnt þessu á Norðurlöndunum til dæmis að þetta tekur á annan mánuð.“

Óskar vonast til þess að það náist að svara sýnum á innan við mánuði hjá þeim sem fara í sýnatöku í næstu viku. Gunnar Bjarni segir ekki skipta máli hver hýsir þjónustuna, heilsugæslan eða Krabbameinsfélagið. „Það skiptir hins vegar megin máli hvar sýnin eru, hvar þau eru greind og hvernig aðgengi er að þessum sýnum og að það líði sem stystur tími frá sýni er tekið til greiningar þangað til niðurstaða er komin,“ segir Gunnar Bjarni.