Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forstjóri Pfizer varar við að bíða með seinni sprautuna

epa08999833 A health worker administers the Pfizer vaccine to Alice Thipphavong (R) during the opening of Levi's Stadium COVID-19 vaccination site in Santa Clara, California, USA, 09 February 2021. The County of Santa Clara Health System began  vaccinating its Santa Clara County residents on opening day, but plans to increase capcity vaccinations to 15,000 people per day when vaccine supplies increase to make Levi's Stadium CaliforniaÕs largest vaccination site.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ný ísraelsk rannsókn bendir til þess að virkni fyrri sprautunnar af bóluefni Pfizer/BioNTech sé 85 prósent. Þetta stangast á við niðurstöðu hjá fyrirtækinu sjálfu sem sýndi að virkni bóluefnisins væri 52,4 prósent eftir fyrri sprautuna en 95 prósent eftir þá seinni. Forstjóri Pfizer varar við að bíða með seinni sprautuna því frekari rannsókna sé þörf.

Ísrael er komið lengst með bólusetningu gegn COVID-19 og náði rannsóknin til 9.000 heilbrigðisstarfsmanna.

Niðurstöðurnar voru birtar í hinu virta vísindariti Lancet og benda til þess að virkni bóluefnisins aukist tveimur til fjórum vikum eftir fyrri sprautuna. „Smituðum með einkenni fækkaði um 85 prósent,“ sagði Gili Regev-Yochay, forsvarsmaður rannsóknarinnar á lokuðum blaðamannafundi á fimmtudag.  

Bretar hafa farið þá leið að bíða í tólf vikur með seinni sprautuna af Pfizer sem er sami tími og á að líða milli fyrri og seinni sprautunnar með bóluefni AstraZeneca.  Þannig hefur þeim tekist að gefa nærri 17 milljónum fyrsta skammtinn af bóluefni. Bresk stjórnvöld segja þetta stutt vísindagögnum og geti heft útbreiðslu faraldursins.

Anthony Faucci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, hefur varað við þessari aðferð og sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur sagt að þótt hægt sé að gefa seinni sprautuna 42 dögum seinna eigi eftir fremsta megni að reyna að gefa hana eftir 21 dag, eins og mælt er fyrir um á fylgiseðli bóluefnisins.

Albert Bourla, forstjóri Pfizer, varaði við því að bíða með seinni sprautuna í viðtali við fréttamann CNN í gærkvöld. „Við vitum ekki hvað gerist ef seinni sprautan er ekki gefin. Við teljum að þetta virki ekki en þetta er eitthvað sem við erum að skoða,“ sagði Bourla við fréttamenn þegar hann sýndi Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, verksmiðju fyrirtækisins í Michigan. Forbes greinir frá.

Bóluefni Pfizer/BioNTech var það fyrsta sem fékk skilyrt markaðsleyfi í Evrópu.  Það þarf að geymast við mikið frost, -60 til -90 gráður.  Í fyrstu var aðeins talið að hægt væri að ná fimm skömmtum úr hettuglasi með bóluefninu. Síðar hefur komið í ljós að með sérstökum tækjum er hægt að ná sjötta skammtinum. Nærri níu þúsund Íslendingar teljast full bólusettir með bóluefni Pfizer, að því er fram kemur á covid.is

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV