Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm húsleitir og alls níu í gæsluvarðhaldi

Einn var úrskurðaður í gæsluvarðhald síðdegis vegna rannsóknar á morðinu í Rauðagerði í Reykjavík fyrir viku og eru alls níu manns í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Rannsókn á morði á albönskum manni búsettum hér á landi utan við heimili hans í Rauðagerði í Reykjavík síðasta laugardagskvöld vindur áfram upp á sig. Frá því í gær hefur þetta gerst að sögn Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns sem stjórnar rannsókninni.

„Það hafa verið framkvæmdar einar fimm húsleitir og í kjölfarið fylgdu tvær handtökur. Í framhaldinu gerðum við kröfu á annan þessara handteknu í gær og síðan hafa yfirheyrslur og úrvinnsla gagna verið  í gangi.“
Og hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald, annar þessara?
„Já“.
Eru þetta útlendingar báðir tveir?
„Já.“

Margeir vill ekki gefa upp þjóðerni þessara manna að öðru leyti en því að landar þeirra eru í hópnum sem þegar er í gæsluvarðhaldi, en það er fólk frá Albaníu, Litháen, Eistlandi, Rúmeníu, Portúgal og Spáni, flest frá Albaníu, auk eins Íslendings.

Þið hafið gefið það út að þið teljið ykkur vera með byssumanninn í haldi, engu að síður eru níu manns í gæsluvarðhaldi. Hvað skýrir það?
„Eins og við höfum komið inn á áður þá teljum við okkur vera með alla þá sem koma eitthvað að málinu, en við höfum ekki farið neitt nánar út í það hvert hlutverk hvers og eins er.“

Að sögn Margeirs miðar rannsókninni vel miðað við umfang málsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur notið aðstoðar ríkislögreglustjóra við rannsóknina. Vegna fullyrðinga um að almenningur sé í hættu vegna þessa máls segir hann svo ekki vera. Ef slíkt kæmi upp myndi lögreglan bregðast við því.