Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fangelsun rappara mótmælt fjórða kvöldið í röð

20.02.2021 - 00:18
epa09025006 Fire on some street furniture during a march in protest of imprisonment of Spanish rapper Pablo Hasel in central Barcelona, north eastern Spain, 19 February 2021. Riots happened in several Spanish cities after Hasel was sentenced to a nine-months in jail sentence after he was found guilty of glorifying terrorism and insulting the crown and state institutions.  EPA-EFE/QUIQUE GARCIA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mótmælendur hafa flykkst út á stræti Barselóna og fleiri spænskra borga í kvöld, fjórða kvöldið í röð, til að mótmæla dómi og fangelsun rapparans Pablos Haséls. Mótmælin voru þó heldur fámennari í kvöld en áður. Í Barselóna söfnuðust nokkur hundruð mótmælenda saman á torgi í miðborginni, kröfðust frelsis fyrir Hasél og sökuðu spænska fjölmiðla um að ganga erinda yfirvalda.

 

Líkt og undanfarin kvöld byrjuðu mótmælin friðsamlega en þróuðust svo út í óspektir er á leið, þegar hluti mótmælenda tók að kveikja í ruslafötum, grýta lögreglu og vinna skemmdarverk á verslunum, skrifstofum stjórnmálaflokka og fleiri byggingum.

„Afleiðing úreltrar og forneskjulegrar löggjafar“

Miquel Samper, ráðherra í heimastjórn Katalóníu, segir mótmælin afleiðingu „úreltrar og forneskjulegrar" refsilöggjafar, en líka almennrar þreytu og skapraunar vegna kórónaveirufaraldursins og alls sem honum fylgir. „Ekkert réttlætir þó ofbeldið á götum Barselóna," segir ráðherrann.

Umdeildur og orðhvatur

Pablo Hasél var dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir óvirðingu við konungsfjölskylduna og ýmsar opinberar stofnanir, svo sem þing og lögreglu, í rapptextum sínum og færslum á Twitter, og fyrir að „upphefja hryðjuverk" á sama vettvangi. Hann mætti ekki til afplánunar á settum degi í síðustu viku og var hann því sóttur með lögregluvaldi á þriðjudag. Mótmæli hafa staðið yfir síðan.

Hasél er orðhvatur listamaður og jafnvel orðljótur á köflum, og umdeildur eftir þvi. Mörgum, þar á meðal hundruðum spænskra listamanna með heimsþekktar stórstjörnur í fylkingarbrjósti, þykir þó heldur langt til seilst að dæma hann í fangelsi og segja dóminn, sem staðfestur var í hæstarétti á dögunum, alvarlega aðför að tjáningarfrelsinu í landinu. Undir þetta taka alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International.