Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetning hafin á Nýja Sjálandi

epa08911999 Signage is seen at a drive through covid19 testing facility at Springers Leisure Centre in Cheltenham, Melbourne, Australia, 31 December 2020. Three new locally acquired coronavirus cases have been detected in Victoria, breaking the state's two-month clean streak.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Bólusetning gegn COVID-19 hófst á Nýja Sjálandi í dag og byrjar í Ástralíu á mánudag. Heilbrigðisyfirvöld í Auckland segja fyrstu bólusetningarnar marka tímamót en þær séu þó aðeins fyrsta skrefið á langri leið.

Lokað land - fá smit

Nýsjálendingar hafa verið lofaðir í hástert fyrir viðbrögð sín við heimsfaraldri kórónaveirunnar. Lykilatriði í þeim viðbrögðum er nær algjör lokun eyríkisins fyrir utanaðkomandi ferðalöngum nær allan tímann sem farsóttin hefur geisað, og strangar og víðtækar lokanir þá sjaldan að hún stingur upp kollinum.

Aðeins 26 hafa dáið úr COVID-19 á Nýja Sjálandi, þar sem rúmar fimm milljónir manna búa, og 2.350 greinst með sjúkdóminn. Til samanburðar hafa 6.045 smit verið staðfest hér á landi og 29 dáið úr sjúkdómnum.

Framan af verður höfuðáhersla lögð á að bólusetja fólk í mestu áhættuhópunum og þau sem snúa heim erlendis frá, auk þeirra sem starfa við landamæragæslu og sóttvarnahús og -aðgerðir hvers konar.

Nýja Sjáland áfram lokað útlendingum

Þrátt fyrir bólusetningu, fá smit og mikilvægi ferðaþjónustu fyrir nýsjálenskt efnahagslíf hefur engin breyting verið boðuð varðandi ferðalög til Nýja Sjálands í bráð. Þvert á móti hafa stjórnvöld lýst því yfir að ólíklegt sé að erlendir ferðamenn fái að heimsækja Nýja Sjáland á þessu ári.

Í Ástralíu, þar sem ferðaþjónusta er líka mikilvæg  atvinnugrein og landið líka meira og minna lokað erlendum gestum síðasta árið, hefst bólusetning á mánudag. Þar verður byrjað á því að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk.