Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Biden ekki að fara að bjóða Rússum í G7-hópinn á ný

20.02.2021 - 00:52
epa09019441 White House Press Secretary Jen Psaki speaks during a press briefing in the Brady Press Briefing Room of the White House, in Washington, DC, USA, 17 February 2021.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
 Mynd: EPA-EFE - SIPA USA POOL
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, ætlar ekki að beita sér sérstaklega fyrir því að Rússum verði boðin þátttaka í samstarfi nokkurra helstu iðnríkja heims á ný, þannig að G7-hópurinn verði aftur G8. Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, greindi fréttamönnum frá þessu um borð í forsetaflugvélinni í kvöld. Ákvörðun um að bjóða Rússum aftur að borðinu verði eingöngu tekin í samráði allra aðildarríkja.

Rússar reknir úr G8 eftir innlimun Krímskagans

Rússar voru aðilar að samstarfinu frá 1997 og fram í mars 2014, en þá voru þeir útilokaðir frá því vegna innlimunar Krímskagans og G8 varð aftur að G7. Forveri Bidens í Hvíta húsinu, Donald Trump, þrýsti mjög á um það að Rússum yrði boðin aðild að nýju, ásamt fleiri ríkjum. Kallaði hann G7 „mjög gamaldags samansafn ríkja“ og sagðist vilja bæta Rússlandi, Ástralíu, Suður-Kóreu og Indlandi í hópinn.

„Ég held ekki að við séum að fara að senda Rússum ný boð um þátttöku eða ítreka fyrri boð um slíkt. Augljóslega yrði slík ákvörðun tekin í samráði við félaga okkar í G7," sagði Psaki. Auk Bandaríkjanna eru Kanada, Japan, Þýskaland, Frakkland, Bretland og Ítalía aðilar að G7, ásamt Evrópusambandinu sem heild.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV